Þjóðaröryggisráð fundaði um óæskilega dróna

Fundurinn sl. föstudag var í annað sinn sem þjóðaröryggisráð hefur …
Fundurinn sl. föstudag var í annað sinn sem þjóðaröryggisráð hefur komið saman í tíð núverandi ríkisstjórnar. mbl.is/Karítas

Óæskilegt drónaflug á Norðurlöndunum var á meðal þess sem rætt var á fundi þjóðaröryggisráðs síðastliðinn föstudag auk þess sem ráðið fékk yfirlit um stöðu varnargetu Íslands. 

Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. 

Spurð hvort mögulegar aðgerðir til að auka varnargetu Íslands hafi verið til umræðu á fundinum segir Kristrún: 

„Nú ætla ég ekki að fara í smáatriðum yfir það sem gerðist á þessum fundi, það ríkir trúnaður um það. En það liggur alveg fyrir að það er geta í kerfinu til að bregðast við. Það er auðvitað verið að styrkja varnir út um allan heim,“ segir Kristrún. 

Liggur fyrir að Ísland þurfi að bregðast við

Hún bendir á að stór ríki í Evrópu sem eru þegar með miklar varnir séu farin að bregðast við breyttu ástandi í alþjóðamálum og því liggi fyrir að Ísland þurfi að bregðast við með einum eða öðrum hætti. 

„Það er skynsamlegt að gera það í samstarfi við önnur ríki, nýta þekkingu og fá að taka þátt í verkefnum erlendis þannig að við séu ekki ein á báti,“ segir Kristrún. 

Þetta var í annað sinn sem þjóðaröryggisráð hefur komið saman í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hlutverk ráðsins er m.a. að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er það jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. 

Ráðið skal einnig meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert