„Ég kynntist nýjum aðferðum í myndlist þegar kínverskur myndlistarmaður, sem sýnir á sýningunni, sýndi mér hvernig á að mála með vatnslitum samkvæmt ákveðinni hefð sem er ekki kennd í dag,“ segir Erla S. Haraldsdóttir myndlistarmaður.
Hún er í hópi alþjóðlegra listamanna sem sýna verk á samsýningunni Encountering 8000 Kilometres á Nanning-safninu í Nanning, Guangxi-héraði í Kína. Sýningin var opnuð í ágúst og stendur í þrjá mánuði. Hún er þriðji hluti af sýningaröð þar sem lögð er áhersla á listsköpun í samtali milli ólíkra menningarheima. Sýningin er í samstarfi við Nanning-safnið og viðskiptaráð Evrópusambandsins í Guangxi, undir sýningarstjórn Huang Ping.
Erla var þrjár vikur í Kína og hafði vinnustofu til umráða og vann þar sjö verk en sýnir auk þess tvö stór málverk sem umsjónarmenn sýningarinnar völdu af heimasíðu hennar.
Sjö listamenn, frá Þýskalandi, Íslandi, Ítalíu og Póllandi, eiga verk á sýningunni og allir eru með aðstöðu í Berlín eða hafa tengsl við borgina. „Við listamennirnir vorum saman allan tímann og ég hafði ekki hitt neinn þeirra áður,“ segir Erla.
Listamennirnir fóru í skipulagðar ferðir. „Það var þétt dagskrá frá morgni til kvölds. Við heimsóttum Listaháskólann í Nanning og þar voru nemendur að læra skúlptúr á mjög hefðbundinn hátt og fyrirmyndin var kínverskur hermaður.
Við vorum á þeytingi frá einum stað til annars. Við fórum meðal annars til Laibin, Wuzhou, Jinxiu, Shengtang-vatns, Liubao og á teræktunarsvæði Cangwu-héraðs.
Við fórum upp í fjöll og sáum fjallahring, eins og maður sér í bíómyndum, þar sem klettar eru þaktir gróðri. Þessi fjöll virka eins og náttúrulegir skúlptúrar, mjúkir, sveigðir og dularfullir, og skapa nærri því draumkennt rými þar sem þokan færist til og frá allan tímann.
Ég varð fyrir miklum áhrifum af umhverfinu og þessi dvöl varð uppspretta nýrra verka, kol og gvass á pappír, þar sem ég vann úr landslagi, hefðum og menningararfi Kína. Ég gerði til dæmis málverk af fjöllunum.“
Annað verk Erlu er af teguði Kínverja og enn annað verk, gert með kolum og gvassi, sýnir áttblaða stjörnu. „Það mynstur er mjög öflugt sjónrænt tákn, eitt lengsta mynstrið í vefnaði í Guangxi og er einfalt í formi en hefur djúpa merkingu. Það sem gerir það svo áhugavert fyrir listamann er hvernig það fer á milli menningarheima, það er hægt að finna svipaða mynsturgerð í tíbeskum og jafnvel norrænum skrautmynstrum, til dæmis lopapeysan okkar, og einnig hjá Ndebele-fólkinu í Suður-Afríku.“
Erla mun sýna ný málverk í Origin Center í Jóhannesarborg í Suður-Afríku nú í október. Í janúar á næsta ári sýnir hún í Gallery Berlin.
Verk Erlu hafa verið sýnd víða erlendis og í helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi. Hún stundaði nám við Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi og San Francisco Arts Institute og er með MFA-gráðu frá Valand-listaakademíunni í Gautaborg (1998).
Hún býr í Berlín og Suður-Afríku en segir að sig langi til að flytja heim til Íslands hvað úr hverju. „Hér eru fjölskylda og vinir sem ég sakna að sjá ekki nóg af. Svo er Ísland farið að kalla á mig. Birtan hér, lyktin og litirnir, allt er þetta svo sérstakt.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
