Veðurstofa Íslands spáir hárri ölduhæð við Faxaflóa á morgun eftir hádegi.
Á vef stofnunarinnar segir að eftir hádegi á morgun megi búast við talsverðum áhlaðanda og þar sem einnig verði stórstreymt geti sjór gengið á land og valdið staðbundnu tjóni.
Veðurstofan gaf í morgun út gular viðvaranir vegna veðurs við Faxaflóa og á Suður- og Suðausturlandi.
Íbúar eru hvattir til að tryggja lausamuni utandyra.
Í Mýrdal og Öræfum gætu vindhviður náð 30-35 m/s við fjöll. Akstursskilyrði eru sögð varasöm fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.
