Fram á ystu nöf þarf að fara varlega, eins og gildir í vinnu á brúnni yfir Þjórsá. Starfsmenn Rekverks ehf. eru þarna við hrikalegar aðstæður við ólgandi jökulfljótið að hækka handrið brúarinnar sem er mikilvæg aðgerð í öryggisátt.
„Svona úrbætur þarf tvímælalaust að gera víðar á landinu,“ segir Davíð Eyfjörð Reynisson hjá Rekverki, sem er með fimm manna hóp sem verður þarna við störf fram í næstu viku.
Umferð á hringveginum yfir brúna er ljósastýrð meðan á þessu stendur, það er bílum er hleypt til hvorrar áttar með nokkurra mínútna millibili. Þjórsábrúin sem hér sést í forgrunni var reist fyrir um 20 árum en í baksýn er eldri brú, sem var reist árið 1949.
