Afreksíþróttamenn glíma við þunglyndi og kvíða, brenglaða líkamsmynd og matarvenjur, líkt og annað fólk.
Þetta segir dr. Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík, sem flytur erindi í HR í dag í tilefni af geðheilbrigðisviku skólans. Erindið fjallar um hvað sjálfsræktariðnaðurinn leggur á nútímamanninn og hvað séu raunhæfar kröfur sem hver og einn geri til sjálfs sín.
„Afrek, titlar, aðdáun, miklar æfingar og súperform kaupa ekki geðheilbrigði og velsæld, því það eru vísbendingar um að meiri æfingar geti orsakað verri líðan,“ segir Hafrún.
Hún segist í erindinu ætla að reyna að spegla markmið venjulegra manneskju við afreksmanneskju.
„Við viljum standa okkur vel í vinnunni, vera frábærir foreldrar, eiga gott félagslíf, sinna makanum, vera smart, borða hollt, hreyfa okkur og hvílast nægilega. Þetta reynist mörgum erfitt því það eru miklar kröfur sem sjálfsræktariðnaðurinn leggur á okkur með því að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.“
Sjálfsræktariðnaðurinn tekur hús víða og segir Hafrún að við fáum endalaus skilaboð um að gera betur á flestum sviðum til að höndla hamingjuna.
„Eðli málsins samkvæmt gengur líf afreks íþróttafólks út á að hámarka afköst, synda hraðar, kasta lengra og svo framvegis. Þegar mjög vel gengur er þetta fólk sett á stall og við lítum á það sem ofurmanneskjur, sem það er í einhverjum skilningi en er fyrst og síðast manneskjur sem takast á við streitu og alls kyns vandamál eins og við hin.“
Spurð hver sé lykillinn að því að ná sem bestum árangri jafnframt því að halda uppi lífsgæðum segir Hafrún að í stuttu máli megi segja að það sé að vera meðalgóð í því sem við tökum okkur fyrir hendur.
„Nota ókeypis og sígild sjálfshjálparráð, stunda hóflega hreyfingu, borða öfgalaust, vera innan um gott fólk og reyna að láta gott af sér leiða.“
Erindi Hafrúnar nefnist Ofurmanneskja ég – Í skugga fullkomnunar og verður streymt á hr.is í dag frá klukkan 12.15 til 12.45.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
