Alma vanhæf vegna hlutastarfs eiginmannsins

Alma D. Möller, heilbrigisráðherra, sagði sig frá málinu vegna skyldleika.
Alma D. Möller, heilbrigisráðherra, sagði sig frá málinu vegna skyldleika. mbl.is/Eyþór

Eiginmaður Ölmu D. Möller, heilbrigðisráðherra, starfar í hlutastarfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og hefur jafnframt verið aðili að ferliverkasamningi við sjúkrahúsið. Þetta staðfestir heilbrigðisráðuneytið í skriflegu svari til mbl.is, en Alma er jafnframt einn eigandi félags sem hefur fengið greiðslur frá sjúkrahúsinu vegna starfa eiginmannsins.

Í svari ráðuneytisins segir að eiginmaður Ölmu hafi starfað í góðri trú samkvæmt samningi sem SAk bauð honum, en að hann hafi nýverið verið upplýstur um að samningurinn kynni að falla undir svokallaða gerviverktöku.

„Þess ber þó að geta að hann er með eigin tryggingu,“ segir í svari ráðuneytisins.

Að sögn ráðuneytisins starfar hann annars vegar í hlutastarfi á SAk og hins vegar hlutastarfi sem sjálfstætt starfandi sérfræðilæknir. Þar starfar hann í gegnum félagið Jónasson og Möller slf, sem stofnað var árið 2003 og er í eigu fjölskyldunnar. Jafnframt kemur fram í svarinu að dóttir hjónanna, sem er skráður stjórnarmaður í félaginu og einn eigandi, sé einnig sjálfstætt starfandi og starfi sem eldfjallafræðingur og leiðsögumaður.

Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá Skattsins er Alma skráður eigandi þriðjungshlutar í umræddu félagi á móti þriðjungshlut bæði eiginmanns hennar og dóttur. Þar sem félagið er skráð sem samlagsfélag (slf.) þarf ekki að skila ársreikningi fyrir það og liggja tekjur þess því ekki fyrir.

Segir samningana ekki standast lög

Alma hefur sagt að samningarnir sem um ræðir standist ekki lög og að þeir geti haft afleiðingar hvort tveggja fyrir þá sem veiti þjónustuna og þá sem kaupa hana. Kom það meðal annars fram í ræðu Ölmu á þingi í síðasta mánuði. 

Sagði hún mál ferliverksamninga eiga sér margra ára forsögu og að þeim hafi verið hætt á Landspítalanum upp úr síðustu aldamótum. SAk hefði hins vegar haldið þeim áfram, en hafi haft langan tíma til að leggja þetta fyrirkomulag af.

Í ágúst á síðasta ári sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið, þáverandi ráðherra, dreifibréf til allra forstöðumanna ríkisstofnana þar sem fjallað var um þessa svokölluðu gerviverktöku og bent á að hún væri hvorugum til hagsbóta. Heilbrigðisráðuneytið fylgdi á eftir með bréfi í mars og áréttaði þennan mun sem er á launþegasambandi og sambandi við verktaka. SAk er því búið að hafa langan tíma til að undirbúa sig og ráðuneytið hefur ekki sagt að öllum skyldi sagt upp á einu bretti heldur að það þyrfti að fara yfir þessa samninga þannig að þeir yrðu löglegir og að svokölluð gerviverktaka eigi auðvitað að heyra sögunni til,sagði Alma á þingi 22. september.

Jóhann Páll settur staðgengill

Eins og fram kom í frétt mbl.is í gær þá sagði heilbrigðisráðherra að tryggja verði þjónustu sérfræðilækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri með öllum ráðum.

Hún greindi frá því á Alþingi í gær að hún muni ekki koma að málinu vegna skyldleika við einn þeirra lækna sem starfa á sjúkrahúsinu. En Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra hefur verið settur staðgengill heilbrigðisráðherra í málinu.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði málið að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma og sagði ljóst að þjónustan myndi dragast verulega saman ef ekki fyndist lausn á stöðunni sem uppi er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert