Átján manns missa vinnuna í Seljahlíð

Hjúkrunarheimilið Seljahlíð.
Hjúkrunarheimilið Seljahlíð. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Átján manns var sagt upp störfum hjá hjúkrunarheimilinu Seljahlíð um síðustu mánaðamót, en það var gert í kjölfar þess að Reykjavíkurborg sagði upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur 20 hjúkrunarrýma í Seljahlíð.

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Í svarinu kemur og fram að þetta sé í samræmi við ákvörðun sem tekin var í borgarstjórn 6. desember 2022 um að loka hjúkrunarheimilinu. Segir þar að hjúkrunareiningin í Seljahlíð sé lítil og hafi þótt óhagkvæm í rekstri. Hafi Reykjavíkurborg um árabil þurft að greiða með rekstrinum sökum smæðar heimilisins. Bent er á í svarinu að rekstur hjúkrunarheimila sé ekki á verkefnasviði sveitarfélaga.

Þegar ákvörðun var tekin um lokun hjúkrunarheimilisins undir lok árs 2022 voru hjúkrunarrýmin 20 talsins. Þeim hafi síðan fækkað jafnt og þétt og þau verið færð til annarra hjúkrunarstofnana. Segir að síðustu mánuði hafi enginn búið í hjúkrunarrýmunum í Seljahlíð. Þar hafi verið rekin fjögur skammtímarými, þ.e. hvíldarrými, og fjögur biðhjúkrunarrými, sem ætluð voru fólki sem fluttist beint af Landspítala með gilt færni- og heilsumat og biði eftir varanlegu hjúkrunarrými á hjúkrunarheimili. Í Seljahlíð eru einnig þjónustuíbúðir sem hafi fjölgað eftir því sem hjúkrunarrýmum fækkaði.

Lokunin átti sér aðdraganda

Í svari borgarinnar kemur og fram að Landspítalinn finni fólkinu sem hefur verið í biðhjúkrunarrýmunum fjórum nýjan stað. Hætt verði að taka inn nýtt fólk í hvíldarrými, en dvöl þar sé einungis í skamman tíma. Borgin segir að lögð sé rík áhersla á að aðstoða starfsfólk við að finna önnur störf, ýmist innan velferðarsviðs eða annars staðar. Starfsfólkið sem missir vinnuna muni að óbreyttu starfa í Seljahlíð til næstu áramóta.

Lokunin hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Þannig var samþykkt í borgarráði í febrúar í fyrra að fresta uppsögn á samningi um rekstur hjúkrunarheimilisins.

Þegar málið var afgreitt í borgarráði fagnaði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins því í sérstakri bókun að fresta ætti uppsögn samningsins. Flokkur fólksins var þá í minnihluta í borgarstjórn, en tekur nú þátt í meirihlutasamstarfi vinstriflokkanna í borginni. Segir í bókuninni að flokkurinn hafi mótmælt því að hjúkrunarrýmin í Seljahlíð yrðu lögð niður á meðan nánari útfærsla lægi ekki fyrir. Hjúkrunarheimilin séu of fá og á meðan ekki væri tryggt að jafn mörg ef ekki fleiri rými kæmu í staðinn styddii fulltrúi flokksins ekki uppsögnina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert