Róbert Ólafsson, meirihlutaeigandi Brewdog á horni Frakkastígs og Hverfisgötu, segir að aukinn launakostnaður, hækkandi verð á aðföngum og áfengisgjöld hafi verið banabiti ölkelduhússins.
„Ástæðurnar eru margar: erfitt rekstrarumhverfi, erfiðleikar hjá Brewdog erlendis og almennur rekstrarvandi. Það hefur ekki verið hægt að velta öllu því út í verðlagið. Bjórverðið er komið yfir sársaukamörk hjá fólki, og ekki hægt að hækka það í takt við vísitölu. Hann er í raun orðinn lúxusvara,“ segir Róbert.
Hann vísar þar til þess að Brewdog sé alþjóðleg, skosk handverksbjórkeðja sem hefur verið að minnka umsvif sín. Brewdog hér á landi var með samning við skosku starfsemina.
„Þeir hafa lokað stórum hluta staðanna sinna í Skotlandi og Bretlandi,“ segir Róbert.
Rekstur Brewdog hefur verið til sölu í um hálft ár. Innifalið í því eru leigusamningur og öll tæki sem til þarf.
„Það hefur ekkert komið út úr því. Reksturinn er því bara áfram til sölu,“ segir Róbert.
Brewdog hyggst halda staðnum opnum út október. Að sögn hans eru átta stöðugildi í starfseminni.
Róbert er einnig eigandi Forréttabarsins og hefur rekið hann í 12 ár.
„Nú tekur við að halda vel utan um þann rekstur. Það er í raun 300% vinna að starfa þar og halda utan um reksturinn,“ segir Róbert.
