Braut ítrekað á stjúpdóttur sinni

„Í ljósi yfirburðastöðu ákærða gagnvart brotaþola sem fullorðinn forsjáraðili stúlku …
„Í ljósi yfirburðastöðu ákærða gagnvart brotaþola sem fullorðinn forsjáraðili stúlku á táningsaldri voru brot ákærða þannig sérstaklega ófyrirleitin,“ segir í dómi héraðsdóms. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 11 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot en maðurinn braut ítrekað á stjúpdóttur sinni. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni tvær milljónir króna í miskabætur.

Héraðsdómur segir að brot mannsins hafi verið sérstaklega ófyrirleitin.

Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í september. Þar var hann ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni og stórfelld brot í nánu sambandi gegn stjúpdóttur sinni á árunum 2018 til 2020. Fram kemur að brotin hafi átt sér stað á sameiginlegum heimilum þeirra í Reykjavík. Þá segir að maðurinn hafi í fjöldamörg skipti áreitt stúlkuna kynferðislega þegar hún var tólf til fjórtán ára gömul. Með háttseminni ógnaði ákærði endurtekið og á alvarlegan hátt lífi, heilsu og velferð stúlkunnar, að því er segir í ákærunni.

Játaði sök

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 3. október en var birtur í dag, að maðurinn hafi játað sök. Þá kemur fram að maðurinn eigi ekki sakaferil að baki samkvæmt sakarvottorði.

Héraðsdómur segir að ekki verði fram hjá því litið að brot mannsins beindust að barni,
stjúpdóttur hans, á sameiginlegu heimili þeirra og fóru flest fram í svefnherbergi hennar
þar sem hún var gengin til náða auk eins brots þar sem ákærði aflæsti baðherbergishurð
þar sem stúlkan var að koma úr sturtu.

Þá segir að stúlkan, sem fluttist til Íslands frá föðurlandi sínu barn að aldri, hafi ekki átt í önnur hús að venda en heimili sitt, móður sinnar og mannsins.

Alvarlegar afleiðingar

„Afleiðing brota ákærða varð sú að brotaþoli var vistuð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur utan heimilis og hefur búið hjá vandalausum frá þessum tíma. Ákærði braut þannig freklega gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stjúpdóttur sinni með ítrekaðri háttsemi og liggur fyrir að brotið hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola, bæði félagslega en einnig andlega en brotaþoli hefur glímt við andlega erfiðleika í kjölfar brota ákærða, meðal annars áfallastreitu og þunglyndi. Í ljósi yfirburðastöðu ákærða gagnvart brotaþola sem fullorðinn forsjáraðili stúlku á táningsaldri voru brot ákærða þannig sérstaklega ófyrirleitin,“ segir í dómi héraðsdóms.

Bent er á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rekstri málsins en tekin var skýrsla af stúlkunni í maí 2022 og að rannsókn málsins hafi í aðalatriðum farið fram á næstu mánuðum. Rannsókn lauk þó ekki endanlega fyrr en í júní 2025. Héraðsdómur segir að engin haldbær skýring hafi í raun fengist á þessum drætti á meðferð málsins sem sé í andstöðu við lög um meðferð sakamála og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

„Að teknu tilliti til þessa dráttar og með vísan til framangreindra refsiforsendna er refsing ákærða ákveðin ellefu mánuðir en með hliðsjón af sakargiftum þykja ekki forsendur til að binda refsingu ákærða skilorði,“ segir héraðsdómur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert