„Því lengra sem líður milli gosa því sterkara getur kvikuhólfið undir Heklu orðið,“ segir Halldór Geirsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Hópur vísindamanna var nærri Heklu á dögunum og mældi þar hæð og halla lands. Útreikningar mælinganna segja að innstreymi kviku í hólf undir fjallinu sé 250 lítrar á sekúndu eða sem svarar fjórðungi úr rúmmetra á sekúndu.
„Alveg er hugsanlegt að brotmörk, það er sú lína þegar kvikuhólfið brestur og kvika brýst fram, hafi breyst með tíma,“ segir Halldór. Hann bendir á að eldfjallið sé nú komið tvöfalt yfir þau þenslumörk sem settu gos um aldamótin 2000 af stað. Óvissuþættirnir séu því margir.
Hallamælingar með sömu aðferðum og við Heklurætur eru einnig gerðar við Öskju. Þær sýna að land þar er að rísa og gos í Dyngjufjöllum gæti verið líklegt. Raunar má segja að landið allt sé í nákvæmri vöktun með tækjum Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar HÍ og fleiri. Vísindamenn víða frá miðla svo upplýsingum sín á milli til greiningar og af því eru ályktanir um líklega framvindu dregnar.
Nánar má lesa um málið á bls.10 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu
