Gular viðvaranir vegna vestan hvassviðris eða storms taka gildi á suðurhelmingi landsins upp úr hádegi og þá er einnig varað við hárri ölduhæð eftir hádegi og talsverðum áhlaðanda, en þar sem einnig er stórstreymt getur sjór gengið á land og valdið staðbundnu tjóni.
Gular viðvarnir taka gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og á Suðausturlandi um hádegisbilið og verða í gildi fram eftir kvöldi.
Veðurspáin gerir ráð fyrir vestan hvassviðri eða stormi með öflugum vindhviðum syðst á landinu sem geta farið í 30-35 m/s. Einnig má búast við dimmum éljum á fjallvegum norðvestanlands.
Á morgun verða sunnan- eða suðvestan 8-15 m/s, hvassast við suðurströndina. Skýjað verður með köflum en fer að rigna eftir hádegi, fyrst sunnan- og vestanlands, en þurrt verður að mestu norðaustan til fram á kvöld. Hitinn verður á bilinu 4 til 10 stig.
