Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kallar eftir lifandi umræðu um sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ráðherrann ræddi við Morgunblaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, en tilefnið er að hann minntist á hagræðinguna sem í slíku fælist í umræðum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku.
„Ef við erum fyrst og fremst að hugsa um það að reka hið opinbera á Íslandi á hagkvæman hátt, þá felast stóru hagræðingarmöguleikarnir í sameiningu stórra sveitarfélaga, ekki lítilla,“ segir fjármálaráðherra.
Líkt og fram hefur komið liggur fyrir frumvarp til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem felur í sér lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Nái frumvarpið fram að ganga verður það verkefni ráðherra að hlutast til um sameiningu minni sveitarfélaga.
Hefur frumvarpið verið gagnrýnt af stjórnarandstöðu fyrir að þvinga sveitarfélög til sameiningar með ólýðræðislegum hætti. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sagði lagabreytinguna ekki snúast um lýðræði, heldur peninga. Því væri ætlað að ná fram hagræðingu.
Fjármálaráðherra veltir því fyrir sér hvort umboðsvandi kjörinna fulltrúa valdi takmörkuðum áhuga á slíkri sameiningu, samlegðaráhrifin væru gríðarleg.
„Í stjórnmálum er alltaf einhver umboðsvandi, að hagsmunir kjörinna fulltrúa og þeirra sem kusu þá fulltrúa eru ekki nákvæmlega sömu hagsmunirnir. Það er auðvitað sérstakt hvað áhuginn á því að ná fram hagræðingu, þá sérstaklega á stór-Reykjavíkursvæðinu með sameiningu sveitarfélaga, hefur verið lítill því þar eru gríðarleg tækifæri. Þetta eru stundum stórar einingar en stundum litlar einingar, eftir því um hvaða sveitarfélag er að ræða, og samlegðaráhrifin alveg gríðarleg. En áhuginn er mjög takmarkaður.“
Eins og fyrr greinir sér fjármálaráðherra öðru fremur tækifæri til hagræðingar meðal stærri sveitarfélaganna. Hann er þó efins um að þvinguð sameining sé rétta leiðin.
„Ég hef ekki mikla trú á því en lifandi umræða um þetta myndi skipta miklu máli, og það var nú kannski þess vegna sem ég nefndi þetta. Íbúar sveitarfélaganna eru líklegastir til þess að vera þeir sem myndu eiga frumkvæði að slíku frekar en hinir kjörnu fulltrúar,“ segir ráðherra.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
