Vaxtalækkun er nær á sjóndeildarhringnum en vaxtahækkun. Ef staðan í dag helst óbreytt fram á næsta ár gæti þurft að hafa áhyggjur af stöðnunarverðbólgu og raunhagkerfið hefur aukið framlegð umfram spár og skilað jákvæðum fréttum, sem þó geta reynst Seðlabankanum erfiðar. Þetta er á meðal þess sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir í samtali við mbl.is.
Hagkerfið virðist vera komið inn í tímabil samdráttar, en á sama tíma mælist hér nokkur og viðvarandi verðbólga í kringum 4%. Háir stýrivextir hafa ekki náð að draga verðbólguna niður þannig að skilyrði skapist fyrir lækkun stýrivaxta. Þegar slíkt ástand verður viðvarandi er jafnan talað um stöðnunarverðbólgu (e. stagflation), en það er ein helsta martröð seðlabanka víða um veröld því mjög erfitt getur verið að komast upp úr slíku ástandi.
Ásgeir segir ekki enn tímabært að tala um stöðnunarverðbólgu, en að hann fari að hafa áhyggjur ef horfur breytist ekki til batnaðar fyrir annan ársfjórðung á næsta ári.
„Ég held að við myndum byrja að hafa áhyggjur af því á næsta ári ef hagkerfið byrjaði að hægja verulega á sér en við myndum ekki sjá verðbólgu ganga niður,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is eftir fund peningastefnunefndar í dag. Þar var tilkynnt um óbreytta stýrivexti í 7,5%.
Spurður nánar um þennan tímaramma, sérstaklega í ljósi þess að Seðlabankinn sjálfur gerir ráð fyrir verðbólgu í kringum 4% inn á næsta ár áður en hún fer að lækka, segir Ásgeir að hann sé þarna að horfa til seinni hluta fyrsta ársfjórðungs.
Lítið hefur gengið að ná verðbólgunni niður frá því snemma á þessu ári. Spurður út í ástæður þess segir Ásgeir að miklar launahækkanir spili þar stóra rullu. Þá hafi orðið launaskrið ofan á kjarasamninga. Hann tekur fram að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem það gerist, en það endurspegli mikla eftirspurn á vinnumarkaði eftir starfsfólki.
Vegna þess segir Ásgeir að kaupmáttur heimila hafi aukist verulega. Háir vextir hafi þó leitt til þess að heimilin hafi aukið sparnað sinn mikið og þau hafi því ekki verið að eyða um efni fram. Þessi aukni kaupmáttur hefur þannig náð að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu og þar með hægist hægar á verðbólgunni.
Stærsti áhrifavaldurinn er þó fasteignamarkaðurinn og segir Ásgeir einkennilegt hvernig hann hafi hagað sér undanfarið. Enn sé liðurinn greidd húsaleiga að hækka í vísitölu neysluverðs hjá Hagstofunni og það sé eitthvað sem Seðlabankinn eigi erfitt með að átta sig á. „Það hefur að einhverju leyti verið erfitt fyrir okkur að skilja nákvæmlega af hverju það gerist,“ segir hann og bætir við: „Það virðist vera að það sé enn einhver þrýstingur til staðar sem kemur illa heim og saman við að við erum að sjá íbúðum á sölu fjölga.“
Spurður hvort hann eigi þá von á því að húsnæðismarkaðurinn eigi inni lækkun til að við förum að sjá einhverja lækkun á verðbólgu segist hann ekki vilja taka svo djúpt í árina. „Kannski ekki lækkun, en að hækkanir hætti.“
Ásgeir segir að hann telji að þegar hægi á hagkerfinu þá muni hægja á innflutningi fólks til landsins og störfum fækka. Það létti svo á leigumarkaðinum. „Samkvæmt öllum efnahagslögmálum ættum við að sjá hægja á markaðinum. Ekki endilega lækkanir, en bara að það hætti að hækka.“
En svo að það fari að hægjast á hagkerfinu, telur Ásgeir að heimili landsins mun þurfa að finna fyrir því á eigin pyngju fyrst eða með auknu atvinnuleysi?
„Nei, ég held að heimilin hafi verið að bregðast við vöxtunum okkar með þeim hætti sem þau eiga að gera sem er að leggja pening inn í banka og spara meira. Þannig lagað hefur peningastefnan verið að virka vel og við erum að auka sparnað heimilanna,“ segir hann um stöðuna. Segist hann ekki telja að heimilin eigi að „finna fyrir miklum kvölum svo að peningastefnan virki“ nema með því að borga hærri vexti.
Atvinnulífið hefur undanfarið kvartað yfir háum vöxtum og formaður Samtaka atvinnulífsins kallaði á nýlegum ársfundi samtakanna eftir vaxtalækkunum svo fyrirtæki gætu farið í fjárfestingar. Á fundinum í morgun kom hins vegar fram að Seðlabankinn teldi raunhagkerfið enn vera mjög öflugt og að skila miklu til hagvaxtar.
En hvað þýðir það við þessar aðstæður? Spurður hvort þarna sé hagkerfið í raun að skila aukinni framlegð umfram spár segir Ásgeir það alveg rétt. Segir hann það í grunninn jákvæðar fréttir þó það geti verið erfiðar fréttir fyrir Seðlabankann í dag.
„Jákvæðar fréttir verða neikvæðar fréttir fyrir okkar og það er jákvætt hvað það hefur gengið vel hjá okkur [þjóðinni] ef við lítum fram hjá verðbólgu og vöxtum,“ segir Ásgeir. „Raunhagkerfið, alvöru framleiðslu og alvöru fólk, það hefur gengið mjög vel. Aukinn útflutningur og töluverð fjárfesting og mikill hagvöxtur. Okkur hefur að sumu leyti gengið miklu betur en öðrum þjóðum, en fyrir Seðlabankann er bara erfitt að reyna að halda aftur af þessu,“ bætir hann við.
Eins og fyrr segir ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í spurningum greiningaraðila á fundinum og svörum Seðlabankastjóra mátti greina að menn hefðu jafnvel áhyggjur af því út frá verðbólgutölum og orðalagi peningastefnunefndar að næsta ákvörðun gæti hallast til hækkunar vaxta frekar en lækkunar.
Erum við eins og staðan er núna nær vaxtalækkun eða vaxtahækkun?
„Ég held að við séum nær vaxtalækkun,“ segir Ásgeir nokkuð ákveðið. Vísar hann til þess að nær allar nýjar fréttir fyrir hagkerfið séu af neikvæðum toga. Meðan ekki komi til ófyrirséðra atburða sem ýti hagkerfinu hraustlega af stað sé því lækkun vaxta nær en hækkun þeirra.
„En við hikum ekki við að hækka stýrivexti ef við teljum þess þörf,“ bætir Seðlabankastjóri við að lokum til setja fram alla fyrirvara.