Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gerði fall flugfélagsins Play að umtalsefni á þingi í dag.
„Það vöknuðu margir upp við vondan draum þegar bárust fréttir af því í síðustu viku að daginn eftir að flugfélagið Play féll hefði verið á gjalddaga á annar milljarður í reikningum fyrir loftslagsgjöld og losunarheimildir á grundvelli ETS-kerfis Evrópusambandsins. Það kerfi er partur af því sem er kallað Fit for 55 sem fyrir flesta hljómar eins og miðlífskrísu aðhaldskerfi, en það er það ekki,“ sagði Bergþór og uppskar hlátur í þingsal.
Hann benti á að þetta væri kerfi sem gengur út á það að ýta fólki sem vildi fljúga á milli staða í járnbrautarlestir. Þetta væri kerfi sem augljóslega ætti ekki við á Íslandi.
„Þessi reikningur var á eindaga í síðustu viku, daginn eftir að flugfélagið Play féll,“ sagði Bergþór undir liðnum störf þingsins í dag.
Hann sagði að þingmenn Miðflokksins hefðu í mars 2023 bent á þetta þegar skyndilega hefði komið fram mál á þingi frá þáverandi utanríkisráðherra undir nafninu viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
„Það hefur legið fyrir allan tímann að þetta yrði verulega íþyngjandi fyrir íslensk flugfélög og sambærilegt mál fyrir íslensk skipafélög. Við verðum núna að hafa kjark til þess að stíga skref til baka og slíta okkur frá þessu þvælusamstarfi sem Fit for 55-nálgun Evrópusambandsins grundvallar. Sú nálgun er svo skaðleg íslenskum hagsmunum að það er bara ábyrgðarhluti hjá okkur hér á þingi að láta okkur áfram damla þarna undir eins og verið hefur. Því að við megum ekki gleyma því að full virkni þessa kerfis mun ganga í gildi 1. janúar 2027. Þá verður lokið öllum þessum aðlögunarundanþágum, jafn litlar og aumar og þær voru sem Ísland fékk. Þá fyrst verður skaðinn mikill,“ sagði Bergþór.
