Ísland fékk „sannarlega undanþágur“

„Við fengum sannarlega undanþágur þegar innleiða átti nýja kerfið um losunarheimildir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, spurð um hvort hinn rúmi milljarður sem Play átti að greiða daginn eftir gjaldþrot félagsins í losunarheimildir hafi verið ófyrirséður. 

Að sögn Þórdísar fékk Ísland sömu undanþágur og önnur eyríki í Evrópusambandinu, á borð við Kýpur og Möltu. Hins vegar náðu undanþágurnar ekki nægilega vel utan um þá sérstöðu Íslands sem eyríki í norðri, fjarri alfaraleið.

Lögðust í lobbíherferð

Utanríkisráðuneytið lagðist í „lobbíherferð“ þegar innleiða átti tilskipun með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda árið 2023.

„Eins og þetta leit út í fyrstu var í engu tekið tillit til þess kostnaðar sem lagðist á flugfélögin hér og hafði þar af leiðandi áhrif á samkeppnishæfni þeirra,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Við settum inn sérstaka línu um að ef forsendur og væntingar ESB um tækniþróun og umhverfisvænni valkosti myndu ekki raungerast, þá myndu þær undanþágur sem við fengum okkar megin halda. Það er að raungerast,“ segir Þórdís Kolbrún.

Í fulla virkni árið 2027

Tillögur um losunarheimildir eða kolefnisskatt á flug, og krafa um vistvænt eldsneyti á flugvélar, eru hluti af mun stærri aðgerðapakka ESB sem lagður var fram í júlí árið 2021 og ber heitið Fit for 55.

Um er að ræða skírskotun í markmið ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030. Tveir liðir snúa að flugrekstri: Annars vegar að flugvélar taki upp umhverfisvænna eldsneyti með íblöndunarefnum, og hins vegar að teknar verði upp nýjar innheimtuaðgerðir vegna losunarheimilda eða losunarskatts, þar sem skattgreiðslur vaxa í samræmi við lengd flugleggsins. Einnig á að fella niður fríar losunarheimildir, líkt og þær voru í eldra kerfi.

Þessar aðgerðir átti að innleiða í skrefum og þær áttu að vera komnar í fulla virkni árið 2027.

Óskýr framkvæmd í innheimtu skatts 

Þrátt fyrir að Ísland hafi fengið undanþágur er snúa að innleiðingu „Fit for 55“ hefur orðið mikill kostnaðarauki fyrir flugfélög í Evrópu í heild sinni við innleiðingu tilskipunarinnar.

„Svo er bara önnur umræða sem þarf að taka um losunarheimildir og þann markað sem er með þær,“ segir Þórdís Kolbrún.

Vísar hún þar til þeirrar framkvæmdar að einkafyrirtæki finna út úr því, í samvinnu við flugfélögin, hversu mikið þau flugu, og eftir útreikninga greiða flugfélögin „kolefnisskatt“ til ESB. Þessar heimildir fara upp og niður í verði og þykir framkvæmdin þeirra skapa ákveðinn óskýrleika þegar kemur að rekstri flugfélaga.

Æfingar Evrópusambandsins

„Þessar æfingar sem Evrópusambandið fór í til að flýta fyrir tækniþróun og öðrum orkugjöfum hafa í raun bara leitt til þess að samkeppnisstaða flugfélaga hefur versnað. Vissulega er einhver framþróun í tækni sem má ekki gera lítið úr, en hins vegar eru þær forsendur sem gefnar voru — um að einhvers konar ný tækni eða aðrir orkugjafar væru komnir á fullt árið 2027 — ekki að raungerast. Fólk er ekki að hætta að fljúga, og það eru miklu stærri aðilar en Íslendingar sem munu hafa áhrif á það hvernig þessi markaður þróast. Það þarf að vera rökrétt nálgun í þessum málum sem hefur ekki svona mikil áhrif á flugfélög í Evrópu. Það má ekki gleyma því að þau eru líka í samkeppni við flugfélög utan álfunnar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir að þegar megi sjá skýr merki um að áherslur Evrópusambandsins séu að breytast. Nú sé aukin áhersla á varnarmál og umhverfismálin að einhverju leyti ekki jafn áberandi í orðræðunni.

Eigum ekki að fallast á málflutninginn

„Það sem málið snýst um hjá Evrópusambandinu er að hvetja fólk til að nota aðra samgöngumáta en flug á styttri leiðum. Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem á við um Ísland — við keyrum ekki til Kaupmannahafnar eða tökum lest til London. Mér hefur fundist þetta svo augljóst að ég tel að Ísland eigi ekki að fallast á málflutning Evrópusambandsins. Við ættum að fara alla leið í því og ekki beygja okkur undir skattlagningu sem er augljóslega fráleit í okkar tilviki,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert