Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir peningastefnunefnd bankans hafa trú á því að það sem hún sé að gera skili árangri. Það taki bara lengri tíma. Merki séu um kólnun hagkerfisins.
„Það eru bara engar töfralausnir til. Íslendingar verða aðeins að horfast í augu við það að það er ekki hægt að fá allt samtímis,” sagði Ásgeir á fundi peningastefnunefndar í morgun eftir að hún ákvað að halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum.
Fram kom í tilkynningu nefndarinnar að frekari skref til vaxtalækkunar væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% markmiði bankans.
„Það er ekki hægt að vera með svona mikinn hagvöxt, mikið í gangi, miklar launahækkanir, mikla fólksfjölgun og allt að gerast en á sama tíma það að þá sé verð á fjármagni lágt eða eitthvað álíka,” bætti bankastjórinn við og sagði Seðlabankann hafa þurft að stíga upp á móti uppsveiflunni.
Í framhaldinu benti hann á að lítið væri að gerast í útlánum bankanna. Hagvöxturinn hefði ekki verið fóðraður með „gírun” eða útlánum.
Slíkt benti til þess að uppsveiflan væri drifin áfram af raunhagkerfinu, sem væri að mörgu leyti gott. Um leið og færi að hægja á því kæmi það fram í lægri verðbólgu.

