Jákvæður tónn þrátt fyrir vonbrigði

Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það séu vonbrigði að Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í morgun. „Þrátt fyrir að töf hafi orðið á áframhaldandi lækkun stýrivaxta þá er jákvæður tónn í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans.“

Þetta sagði Kristján Þórður undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. 

Hann vísaði í ákvörðun peningastefnunefndar SÍ þar sem m.a. segir:

„Greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar.“

Gera meira hraðar

Kristján Þórður segir að Seðlabankinn telji að margt sé að þokast í rétta átt eftir að skipt hafi verið um ríkisstjórn undir lok síðasta árs.

„Forsætisráðherra hefur ítrekað sagt að ef það þarf að gera meira hraðar til að ná þeim árangri þá munum við gera meira hraðar. Það er m.a. verið að gera meira með húsnæðismála- og efnahagspakka sem verið er að leggja lokahönd á og verður kynntur í nánustu framtíð. Með honum er ríkisstjórnin að bregðast við aðstæðum með aðgerðum sem eiga að hafa þau áhrif að íbúðarhúsnæði sé skilgreint sem heimili, ekki fjárfestingarvara,“ sagði Kristán Þórður og bætti við að stjórnvöld væru að mæta þeim hópum sem yrðu helst fyrir barðinu á háu vaxtastigi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert