Innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, gaf í lok síðustu viku út nýja reglugerð sem kveður á um að ekki megi afskrá flugvélar úr íslenskri loftfaraskrá nema uppgjör hafi áður átt sér stað við Isavia ohf.
Þetta er breyting frá gildandi lögum um loftferðir, þar sem kveðið er á um slíkt uppgjör við Samgöngustofu en ekki við rekstraraðila flugvallar.
Reglugerðarbreytingin er að hluta til tilkomin í kjölfar gjaldþrota flugfélaganna WOW og Play en bent hefur verið á að þessi breyting geti haft neikvæð áhrif á fjármögnunarkjör flugfélaga sem starfa undir íslensku regluverki.
Heimildir Morgunblaðsins herma að ekkert samráð hafi verið haft við flugrekendur hér á landi áður en reglugerðin var sett. Þá vekur tímasetningin og hraði í vinnubrögðum undrun.
Morgunblaðið ræddi við Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair um áhrif reglugerðarinnar á félagið og íslenskan flugrekstur almennt.
Hefur reglugerðin áhrif á Icelandair og er hún rétt skilin?
„Já, það er rétt. Leigusalar hafa þegar haft samband við okkur og bent á að þessi nýja reglugerð geti falið í sér aukna áhættu í því að eiga viðskipti á Íslandi. Þetta getur leitt til lakari leigukjara fyrir íslenska flugrekendur og haft áhrif á samkeppnishæfni flugrekstrar á Íslandi í samanburði við önnur lönd.
Höfðaborgarsamningurinn, sem innleiddur var á Íslandi árið 2019, átti að tryggja leigusölum og fjármögnunaraðilum skjótvirkari vanefndarúrræði og bæta fjármögnunarkjör. Nú er farið í þveröfuga átt. Jákvæð áhrif samningsins ganga til baka og Ísland verður jafnvel verr sett þar sem meta þarf sérstaklega pólitíska áhættu af því að stunda viðskipti hér. Reglugerðin gildir afturvirkt, sem er ekki eitthvað sem við höfum vanist í löndum sem við berum okkur saman við. Okkur finnst þetta vera vanhugsuð vinnubrögð hjá stjórnvöldum, sem geta haft alvarleg áhrif á flugrekstur á Íslandi.“
Mun þetta leiða til að betra sé að skrá flugvélar í öðrum löndum?
„Auðvitað getur þetta dregið úr áhuga erlendra fyrirtækja á að starfa á Íslandi. Líklegt verður að teljast að leigusalar geri kröfu um að flugvélar verði skráðar í öðrum löndum til að draga úr áhættu. Að öðrum kosti munu íslenskir flugrekendur þurfa að greiða áhættuálag eða leggja fram auknar tryggingar,“ segir Bogi að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
