Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri segir að kerfi sem byggi á nafnvöxtum sé heilbrigðara og betra fyrir peningastefnu bankans en kerfi með verðtryggðum vöxtum. Hins vegar sé mikilvægt að fólk hafi val um þau lán sem það vilji taka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, gagnrýndi í aðsendri grein á Vísi í gær það tvöfalda kerfi sem væri hér á landi með bæði verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum fyrir íbúðalán þar sem fólk færði sig á milli eftir því hvernig verðbólga væri. Sagði hann þetta bæði valda því að áhrif stýrivaxtahækkana minnkuðu og að vextir yrðu hærri meðal annars þar sem verktakar veigri sér að ráðast í framkvæmdir.
Ásgeir segist hafa ákveðna samúð með fólki þegar það fari yfir í verðtryggð lán núna þegar stýrivextir hafi verið háir lengi. Hann skilji líka að viðskiptabankarnir hafi ekki áhuga á að vinna í verðtryggðu kerfi sem henti þeim ekki vel miðað við það hvernig þeir eru fjármagnaðir á innlánum. Hann segir þetta kerfi hins vegar passa lífeyrissjóðum vel.
Umræðan um þetta er að mati Ásgeirs mjög mikilvæg, en hann segir að þetta fléttist einnig inn í umræðuna um það hverjir eigi að fjármagna húsnæðislánin. „Eiga bankar að fjármagna fasteignalán og lífeyrissjóðir atvinnulífið eða bankarnir að fjármagna atvinnulífið og lífeyrissjóðir heimilin? Ég held að það séu rök bæði með og á móti,“ segir hann og kallar eftir aukinni umræðu um þetta meðal hagfræðinga.
Spurður um þá stefnu sem hann vilji sjá með húsnæðislán hér á landi segir Ásgeir ekkert launungarmál að hann telji að bestu fyrirmyndir fyrir kerfi húsnæðislána á Íslandi vera Noreg og Svíþjóð. „Þar sem innlán og sértryggðar útgáfur standa undir húsnæðislánum.“
Hann tekur fram að sjálfum þyki sér kerfi nafnvaxta vera heilbrigðara og betra fyrir peningastefnuna, en „á sama tíma finnst mér frelsi og val skipta miklu máli.“