Offramleiðsla úti um allan heim

Kísilmálmverið á Húsavík má lifa í voninni um meðbyr Evrópusambandsins …
Kísilmálmverið á Húsavík má lifa í voninni um meðbyr Evrópusambandsins þar til í nóvember. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Orðalag sem snýr að undanþágu fyrir Ísland og Noreg vekur hjá mér vonarneista,“ segir Kári Marís Guðmundsson, forstjóri kísilmálmverksmiðjunnar PCC BakkaSilicon á Húsavík, í samtali við Morgunblaðið um tilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá í gær þar sem greint er frá þeirri tillögu hennar að EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein verði undanþegin verndarráðstöfunum gagnvart innflutningi stáls til ríkja innan sambandsins.

Rökstyður framkvæmdastjórnin undanþáguna með því að lítið af stáli sé flutt frá EES-ríkjunum inn í ríki Evrópusambandsins og í ljósi samþættingar við innri markaðinn vegna EES-samningsins muni innflutningur frá ríkjunum þremur ekki falla undir tollkvóta eða álagningu.

Vonandi tekið öðruvísi á

„Nú er auðvitað nánast ekkert stál framleitt á Íslandi og í Noregi,“ heldur forstjórinn áfram og bendir á að af þeim sökum hafi verið auðvelt að fá undanþágu fyrir löndin í gegn. „Þegar okkar geiri fór af stað með verndartollamál vorum við auðvitað að vonast til að fá slíkt hið sama en af því að framleiðsla Íslands og Noregs á kísilmálmi er töluverð í samanburði við Evrópu var ekki veitt undanþága fyrir okkur í fyrsta kastinu,“ segir Kári.

Nú sé ný reglugerð í smíðum og samkvæmt reglum frá Alþjóðaviðskiptamálastofnuninni megi verndartollar ekki gilda lengur en í átta ár. „Þessi nýja reglugerð á að tækla offramleiðslu heimsins og flæði inn á markað í Evrópu og vonandi verður tekið öðruvísi á málum með henni,“ segir hann enn fremur og segir þarna komna hugsanlega leið fyrir kísilmálmgeirann til að tryggja ákveðna vernd en þó opið flæði inn á evrópskan markað.

Kveðst Kári nýkominn af ráðstefnu kísilmálmsgeirans og segir frá því að nú sé búið að loka kísilverunum í Frakklandi, á Spáni, í Þýskalandi og á Íslandi, „það er bara Noregur sem er eftir starfandi og allir eru að kalla eftir einhverju sambærilegu. Það er offramleiðsla úti um allt í heiminum, líttu á bílaiðnaðinn í Þýskalandi, nú er flæði á kínverskum bílum og ef engu verður breytt mun evrópskur iðnaður dragast saman smátt og smátt. Ef Evrópusambandið og Evrópa vilja halda í iðnaðarframleiðslu þá þarf að beita einhverjum nýjum meðulum til að bjarga störfum og sjálfstæði álfunnar,“ segir Kári enn fremur.

Bjartsýnin númer eitt

Hvað Bakka snertir segir Kári efni tilkynningar ESB ekki beinlínis snerta kísilmálmverksmiðjuna. „Við vonum samt auðvitað að þetta sé einhver nýr tónn hjá sambandinu sem tryggir eigin hagsmuni og sjálfstæði þess til lengri tíma. Nú þurfum við bara að bíða og sjá í nokkrar vikur hver niðurstaðan verður í okkar máli, það kemur í ljós í síðasta lagi um miðjan nóvember,“ segir hann og kveðst aðspurður vera bjartsýnn.

„Maður verður að vera bjartsýnn, þetta erum ekki bara við, það er stálið, álið og bílaiðnaðurinn í Evrópu, allur iðnaður í Evrópu er að kalla í sömu áttina og með tollana sérstaklega versnaði ástandið til muna, flæðið inn í Evrópu opnast bara enn þá meira og ég held að enginn stjórnmálamaður í Evrópu vilji sjá iðnaðarframleiðslu leggjast enn þá meira af og hverfa, við verðum að hafa fjölbreytileika og tryggja okkar eigin virðiskeðjur og efnahag,“ segir Kári Marís Guðmundsson, forstjóri PCC BakkaSilicon á Húsavík, að lokum um málefni málmtolla í Evrópu.

Ákvörðun í nóvember

Framkvæmdastjórn ESB íhugar enn aðgerðir vegna kísilmálms og því er ekki ljóst hvort Ísland eða önnur EES-ríki verði undanþegin þeim ráðstöfunum. Evrópusambandið hefur meiri hagsmuni þar gagnvart Íslandi og Noregi sem hafa flutt mikið magn kísilmálms inn til ríkja Evrópusambandsins.

Að Evrópusambandið tíni til röksemdir um samþættingu við innri markaðinn í tilfelli stáls vekur vonir um að slíkt verði einnig gert í tilfelli kísilmálms. Von er á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í nóvember hvað kísilmálminn varðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert