Ráðherra ræðst gegn roki

Léttur á fæti labbar Logi í logninu, sem fór eilítið …
Léttur á fæti labbar Logi í logninu, sem fór eilítið hraðar yfir í dag. mbl.is/Eyþór

Þótt bálhvasst hafi verið í Vesturbæ Reykjavíkur í dag lét Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, það ekki á sig fá og hélt í heilsubótargöngu meðfram sjávargarðinum við Ánanaust og áleiðis út á Granda.

Eyþór Árnason ljósmyndari mbl.is, sem var á svæðinu til að fanga krafta náttúrunnar, kom auga á ráðherrann þar sem hann réðst gegn rokinu með brimrótið í bakið. 

Logi segir í stuttu spjalli við mbl.is að hann hafi einmitt mætt Eyþóri þegar hann barðist í gegnum blásturinn, en Logi er búsettur í nágrenninu og gengur að eigin sögn oft þessa leið sér til heilsubótar.

„Þetta var hressandi og fallegt veður,“ segir Logi.

Eins og mbl.is hefur fjallað um í kvöld þá hafa veðurguðirnir minnt á sig víða en sjór flæðir yfir bryggjuna í Garðinum og frussast upp á þjóðveginn á Kjalarnesi. Þá hafa nokkur tré rifnað upp með rótum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert