Líftími sundlaugarbotns í Vesturbæjarlaug er kominn að endamörkum samkvæmt deildarstjóra hjá viðhaldsdeild Reykjavíkurborgar. Það stefnir í frekari framkvæmdir vegna málningar sem tekin er að flagna á botni laugarinnar, en ítrekað þurfti að loka lauginni í sumar.
Forstöðumaður laugarinnar, Anna Kristín Sigurðardóttir, segir að starfsfólk hafi ekki fengið formlega tilkynningu um ástandið og að óvissa ríki um hverjar raunverulegar orsakir vandans séu.
„Okkur hefur ekki verið formlega tilkynnt hvernig staðan er,“ segir Anna Kristín í samtali við mbl.is.
„Við höfum þó ítrekað beðið um að gerð verði ítarleg úttekt á því hvers vegna málningin er að flagna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi sama málning og undirvinna eru notuð en nú virðist hún einfaldlega ekki halda og við skiljum ekki af hverju.“
Hún bendir á að sambærilegt efni hafi verið notað í öðrum laugum borgarinnar án þess að slík vandamál hafi komið upp.
„Til dæmis voru pottar í Sundhöll Reykjavíkur málaðir í sumar með sama efni, en þar var málningin látin þorna í heila viku áður en fyllt var á. Okkur var sagt að bíða í 48 klukkustundir. Maður fer að spyrja sig hvort þornunartíminn hafi einfaldlega verið of stuttur,“ segir Anna Kristín og bætir við að enginn virðist hafa svör við því hvað þurfi að bíða í langan tíma til að málningin þorni almennilega.
„Þótt ég sé enginn sérfræðingur þá velti ég því fyrir mér hvort málararnir hafi í raun fylgt leiðbeiningum framleiðandans,“ segir hún og bætir við:
„Í sumar var heitasti potturinn okkar málaður og þar er ekkert flagn. Það er bara sundlaugin sjálf sem er farin að flagna. Þetta vekur spurningar, eru þetta alltaf sömu málararnir eða eru vinnubrögðin einfaldlega ekki þau sömu?“
Anna Kristín segir jafnframt að starfsfólk hafi orðið hissa hvað varðar mögulegan leka í barnalauginni.
„Það er einn blettur þar sem virðist fara niður í steypu og þeir telja að þar gæti verið leki. En enginn tók eftir neinu slíku á meðan á endurbótum stóð, sem mér finnst dálítið sérstakt,“ segir hún.
Forstöðumaðurinn segir að þetta sé afar bagalegt fyrir bæði starfsfólk og gesti laugarinnar.
„Við erum fyrst og fremst mjög svekkt yfir þessum vinnubrögðum. Áætluninni var ábótavant, framkvæmdatíminn reyndist miklu lengri en áætlað var og nú virðast endurbæturnar ekki standast. Þetta er alls ekki ákjósanlegt,“ segir hún.
„Ég set spurningamerki við af hverju þetta gerist núna en ekki áður. Mér finnst vanta ítarlega rannsókn á því hvað raunverulega fór úrskeiðis – af hverju fer þetta svona hér en ekki annars staðar?“
Samkvæmt upplýsingum mbl.is frá málara sem þekkir til efnisins þornar umrædd málning vissulega á um 48 tímum, en harðnar ekki að fullu fyrr en mun síðar.
Blaðamaður mbl.is ræddi í kjölfarið við Tómas Arnarson, forsvarsmann verktakafyrirtækisins HiH, sem sá um málun laugarinnar á vegum borgarinnar.
Aðspurður hvort fyrirtækið hafi komið að málun Vesturbæjarlaugar, svaraði Tómas því til að HiH fylgdi einungis „skipunum“ Reykjavíkurborgar en vildi ekki tjá sig frekar um eðli þeirra fyrirmæla og lagði snögglega á.