Usman Mehmood, eigandi félagsins Glacier Airlines, sem hyggst hefja flug til og frá Íslandi, segir stefnt að því að hefja farþegaflug í júní á næsta ári. Hann segist í viðræðum við tvo leigusala um leigu á flugvél og að ekki verði um hefðbundið flugfélag að ræða.
Þannig muni viðskiptamódelið einkennast af því að erlendir ferðamenn kaupi flug samhliða gistingu og ferðum í gegnum fyrirtæki hans. Hann segist ekki ætla að setja innlendan markað í forgang.
„Ég ætla að einblína á þá 2,3 milljónir ferðamanna sem koma til Íslands í stað þess að einbeita mér að því að selja Íslendingum flugferðir,“ segir Mehmood. Að sögn hans er planið að hefja reksturinn með eina flugvél þó ekki sé útilokað að fleiri bætist við síðar.
Mehmood kemur frá Pakistan en flutti til Íslands árið 2015 og starfaði að eigin sögn í nokkur ár sem leigu- og rútubílstjóri.
Hann hefur undanfarin ár rekið þyrlufyrirtækið Glacier Heli sem hann segist hafa byggt upp án lántöku. Velta félagsins var rúmar 700 milljónir króna árið 2024 og hagnaður 8 milljónir króna. Félagið á eignir upp á um 142 milljónir króna og eigið fé upp á um 20 milljónir króna.
„Ég þekkti engan þegar ég byrjaði en náði að byggja upp sambönd í ferðaþjónustunni. Núna erum við stærsti aðilinn í þyrluferðaþjónustu á Íslandi. Ísland hefur gefið mér allt sem mér hefur áskotnast. Ég væri ekki svona vel settur í Pakistan,“ segir Mehmood.
„Við munum ekki sækja um flugrekstarleyfi,“ segir Mehmood og bætir því við að félagið verði rekið líkt því sem NiceAir og Iceland Express voru eða sem eins konar ferðaskrifstofa.
„Hugmyndin snýr að því að selja flug til ferðamanna en vera í samstarfi við minni fyrirtæki í ferðaþjónustunni. Fókusinn snýr að því að selja fólki gistingu í minni gistiplássum og ferðir í gegnum minni fyrirtæki á markaði,“ segir hann.
Hann segir að sjálfsögðu ekkert sem útilokar það að selja Íslendingum flugmiða en það myndi þá eingöngu verða flugferðir úr landi ef pláss er. Þannig hafi þeir sem velji að greiða fyrir aðra þjónustu en eingöngu flug hér á landi forgang þegar kemur að því að flytja fólk heim eftir dvöl á Íslandi.
Að sögn Mehmood er samningur um leigu einnar vélar langt kominn.
„Það eru nokkrir hlutir sem ég þarf að fara yfir í tengslum við kostnað og annað. Ég hef verið í samtali við tvö félög sem leigja flugvélar og það eru mestar líkur á því að Boeing 737 800 MG verði fyrir valinu. Ég vonast til að klára það fyrir lok mánaðar eða í byrjun þess næsta,“ segir hann.