Forsetahjón, Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason, hófu tveggja daga ríkisheimsókn til Finnlands í gær. Gestgjafar þeirra eru forseti Finnlands, Alexander Stubb, og eiginkona hans, Suzanne Innes-Stubb.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að markmið heimsóknarinnar sé styrkja hin góðu tengsl Íslands og Finnlands, meðal annars á sviði viðskipta, varnarmála og orkumála.
Á fyrri degi ríkisheimsóknarinnar átti forseti Íslands fundi með forseta Finnlands, Jussi Halla-aho forseta Eduskunta – finnska þjóðþingsins, og Petteri Orpi forsætisráðherra Finnlands. Einnig ræddu varnarmálaráðherra Finnlands og utanríkisráðherra Íslands saman og skrifuðu undir yfirlýsingu um nánara varnarsamstarf landanna tveggja.
Dagskrá ríkisheimsóknarinnar hófst kl. 10.00 með formlegri móttökuathöfn framan við forsetahöllina í Helsinki. Lúðrasveit lék þjóðsöngva beggja landa og í kjölfarið voru opinberar sendinefndir kynntar fyrir forsetum og mökum þeirra. Því næst var gengið inn í höllina en þar skráðu forseti Íslands og maki nöfn sín í gestabók, auk þess sem veittar voru orður og skipst á gjöfum.
„Halla Tómasdóttir og Alexander Stubb áttu í kjölfarið klukkustundarlangan fund í forsetahöllinni. Fyrst ræddu þau einslega saman en síðan ásamt opinberum sendinefndum beggja landa. Meðal þess sem bar á góma voru tvíhliða samskipti Finnlands og Íslands sem eiga sér langa og farsæla sögu en einnig samvinna þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs. Málefni NATO og Norðurslóða voru rædd, sem og stuðningur beggja landa við Úkraínu. Einnig var fjallað um víðtæka samvinnu landanna á sviði menntunar og viðskipta, og líðan ungs fólks í löndunum tveimur,“segir í tilkynningunni.
Í kjölfar fundarins skrifuðu varnarmálaráðherra Finnlands, Antti Hakkanen, og utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, undir tvíhliða samstarfsyfirlýsingu um varnarsamstarf en þau höfðu áður fundað um sameiginlega hagsmuni og áherslur landanna í utanríkismálum. Jafnframt var haldinn blaðamannafundur þar sem forsetarnir sögðu fyrst nokkur orð og svöruðu síðan spurningum blaðamanna.
Dagskrá þessa fyrri dags ríkisheimsóknar forseta Íslands og maka til Finnlands lauk með glæsilegum kvöldverði í forsetahöllinni í boði forseta Finnlands og eiginkonu hans, Suzanne Innes-Stubb. Undir borðum fluttu forsetarnir ræður. Bæði fjölluðu þau um löng og góð samskipti landanna og nefndu margt sem sameinaði Íslendinga og Finna, þar á meðal virðing fyrir lýðræðislegum hefðum og metnaður í jafnréttismálum.