Stórt tré lokar götu og sjór frussast á land

Stórt tré rifnaði upp með rótum í Hlyngerði í Reykjavík í kvöld en bálhvasst hefur verið í borginni með snörpum vindhviðum.

Tréð þverar götuna og lokar botnlanganum algjörlega fyrir bílaumferð en ekki er hægt að komast til eða frá tveimur húsum í botnlanganum. Hægt er þó að komast leiðar sinnar gangandi.

Snorri Steinn Gíslason, íbúi í Hlyngerði, ræddi við mbl.is en hann komst ekki í ræktina í kvöld vegna trésins.

Tréð þverar götuna og lokar botnlanganum algjörlega fyrir bílaumferð. Þá …
Tréð þverar götuna og lokar botnlanganum algjörlega fyrir bílaumferð. Þá hefur það lagst á öryggisgirðingu og laskað hana. Samsett mynd/Snorri Steinn Gíslason

Gatan þrengd vegna framkvæmda

Segir hann að framkvæmdir standi yfir í götunni vegna vatnsleka sem þar varð og búið sé að setja upp öryggisgirðingar vegna skurða hér og þar. Tréð hafi m.a. lagst á slíka girðingu og laskað hana. Vegna framkvæmdanna hafi gatan verið þrengd og tréð hafi nákvæmlega fallið á þann hluta götunnar sem er opinn.

Snorri segist ekki vita hvenær verði farið í einhverjar aðgerðir vegna trésins en viðurkennir að fjölskylda hans sé nú þegar farin að velta fyrir sér að ganga í málið. Segir hann nágranna þeirra ekki vera heima og ef ekkert verði að gert muni þeir ekki eiga gott með að komast heim til sín.

Öldurót víða

Í Garðinum í Suðurnesjabæ frussast sjórinn upp á bryggjuna. Gríðarlegir kraftar eru hér að verki.

Sjórinn frussast af feiknarkrafti upp á bryggjuna í Garðinum.
Sjórinn frussast af feiknarkrafti upp á bryggjuna í Garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Mikið öldurót er víða á Faxaflóa vegna veðursins og gusaðist sjór yfir þjóðveginn á Kjalarnesi neðan við Vallá í kvöld. Þórður Bogason tók myndskeið af brimrótinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert