Útlit er fyrir að afbókanir skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar vegna álagningar innviðagjalda verði þess valdandi að tekjutap Grundarfjarðarhafnar og þeirra sem veita farþegum skemmtiferðaskipa þjónustu í Grundarfirði verði í það minnsta rúmlega 870 milljónir króna á árunum 2025 til 2027.
Þetta kemur fram á minnisblaði Grundarfjarðarhafnar sem sent hefur verið efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
„Afbókuð skemmtiferðaskip eru orðin 52 á milli áranna 2025-2027 sem þýðir tekjutap upp á að minnsta kosti kr. 870.285.240. Það veldur ekki síður áhyggjum að fyrir árið 2027 eru bókanir færri en á sambærilegum tíma undanfarin ár,“ segir á minnisblaðinu.
Þar kemur einnig fram að beinar afbókanir skemmtiferðaskipa vegna nýrrar gjaldtöku á yfirstandandi ári séu níu talsins, þær séu orðnar 24 á næsta ári og 19 á árinu 2027. Fulltrúar frá Grundarfjarðarhöfn hafi í seinasta mánuði tekið þátt í kaupstefnunni Seatrade Europe í Þýskalandi líkt og þeir hafi gert í mörg ár. Umræðan hafi ávallt verið jákvæð þar til nú. „Í ár var hljóðið hins vegar annað. Skipafélögin lýsa yfir þungum áhyggjum af innviðagjaldi og afnámi tollfrelsis í hringsiglingum og þeirri miklu óvissu sem það skapar,“ segir enn fremur.
Ljóst sé að þetta komi til með að hafa mikil áhrif á Grundarfjörð og Snæfellsnes í heild. Í tvo áratugi hafi mikil innviðauppbygging átt sér stað á höfninni og mikil vinna verið lögð í að byggja upp sterkt tengslanet og traust svo skipafélögin viti að hverju þau ganga þegar þau koma til hafnar í Grundarfirði. „Frekari uppbygging er áformuð, t.d. með nýrri flotbryggju og endurskipulagningu hafnarsvæðis, en ákvarðanir stjórnvalda setja stórt strik í reikninginn á þessari uppbyggingu.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
