Aðsend grein úr Morgunblaðinu:
Er einhver ástæða til að rifja upp atburð sem gerðist fyrir 245 árum? Því ekki það? Fimm menn týndu lífi á Kili árið 1780. Örlög þeirra og eftirmál öll mörkuðu djúp spor hjá mörgum ættmennum þeirra allt fram til þessa dags.
Ég er að tala um Reynistaðarbræður og félaga þeirra. 28. október 1780 lögðu fimm menn af stað með fjárrekstur frá bænum Tungufelli í Hreppum í Árnessýslu og stefndu norður Kjöl. Þessir menn höfðu verið í fjárkaupaleiðangri sunnanlands vegna þess að fjárpest hafði geisað norðanlands og allt fé skorið niður. Nú voru þeir á leið til Skagafjarðar og hugsuðu sér að vera komnir eftir nokkra daga með fjárhópinn heim í hlað á Reynistað. Þangað náðu þeir aldrei. Þeir fórust allir og flestar skepnurnar, bæði hestar og kindur. Þessir fjárrekstrarmenn voru Jón Austmann, ráðsmaður á Reynistað, Bjarni og Einar Halldórssynir, bræður frá Reynistað, Sigurður Þorsteinsson frá Daufá og Guðmundur Daðason prestssonur úr Mýrdal. Leit að mönnunum hófst þegar fært varð sumarið eftir en ekkert fannst. Síðan þegar Tómas Jónsson lestarstjóri Hólastóls og félagar hans voru á norðurleið rákust þeir á fallið tjald með líkum þriggja eða fjögurra leiðangursmanna og dauðar skepnur allt í kring. Gerður var strax leiðangur að norðan með fjórar líkkistur en þegar til átti að taka voru bara tvö lík í tjaldinu. Tvær kistur komu tómar til baka. Lík bræðranna frá Reynistað var hvergi að finna. Um sumarið fannst hönd í vettlingi með fangamarki Jóns Austmanns, að sagt var, nálægt Blöndu. Rúmlega 60 árum seinna fundust bein af tveimur mönnum á Kili og var talið að nú væru komnir í leitirnar þeir tveir sem enn var saknað. Reynistaðarbræður. Þar með var málinu lokið. Fimm menn með fjárrekstur farast á fjöllum fyrir 245 árum. Ekkert meira um það að segja. Eða hvað?
Jú það er frá meiru að segja. Málið allt er mjög sérstætt og sorglegt, og líka dularfullt og hádramatískt. Það er kaflaskipt líkt og leikrit í mörgum þáttum og aðalhvörfin verða þegar lík bræðranna finnast ekki. Tómas Jónsson, foringi þeirra sem finna tjaldið, segir að lík Bjarna hafi örugglega verið í tjaldinu og taldi að Einar væri þar einnig. Þarna byrjar sagan um líkránin. Slys urðu á fjöllum, ferðamenn urðu úti og sumir týndust og fundust aldrei. Það var í sjálfu sér nógu sorglegt. En þetta var nýtt. Lík sem hurfu. Þetta varð sakamál, menn ákærðir fyrir líkrán, sem er einstakt í sögunni. Þrír menn höfðu verið á ferð um Kjöl milli þess sem tjaldið fannst og líkin voru sótt. Þetta voru Jón Egilsson á Reykjum, Sigurður sonur hans og Björn Illugason vinnumaður á Reynistað. Það féll á þá grunur um að hafa rænt líkunum og einhverju fémætu úr tjaldinu. Strax um haustið 1781 hófust málaferli sem stóðu í fjögur ár, en þeir ákærðu voru ekki dæmdir því það var ekkert hægt að sanna. Jón lést árið 1785 en Sigurður og Björn urðu síðar stórbændur í Skagafirði. Þetta fylgdi þeim alla ævi.
Þetta undarlega mál skýtur alltaf upp kollinum hjá mér og af hverju? Því ræður örugglega nálægð mín við þetta allt saman. Ég er alinn upp á bænum Uppsölum í Skagafirði. Afi minn Bjarni Halldórsson, fæddur árið 1898, var bóndi þar frá 1925. Langamma Bjarna afa, Sigríður Halldórsdóttir (1778-1843), var systir Reynistaðarbræðra. Þannig að þeir bræður Einar og Bjarni eru frændur mínir.
Ég ólst upp með Bjarna afa mínum og var 33 ára þegar hann dó. Aldrei ræddum við þetta mál svo ég muni. Man aðeins að hann amaðist við að ég gengi í grænum fötum. Nú hugsa ég oft: Af hverju settist ég ekki niður þarna á þessum árum og ræddi þetta við hann, spurði hann um allt sem hann hafði heyrt um þessa sorgarsögu sem hafði í raun haft mikil áhrif á ættmenni okkar? En kannski vildi afi aldrei tala um þetta. Helga föðursystir mín og pabbi segja að hann hafi aldrei viljað það.
Árið 1971 var afhjúpaður minnisvarði á Kili um þá fimm sem fórust þar 1780. Ég var við athöfnina á Beinahól, 17 ára gamall, og lifði mig inn í þessa örlagasögu. Þar flutti afi ræðu og sagði m.a.: „En hulunni verður ekki lyft. Vér vitum það eitt að þeir hurfu, hurfu inn í ógnir öræfanna, inn í dularmögn sögunnar.“
En nú sit ég hér í Vesturbænum í Reykjavík, fjarri hríðarbyl á Kili, og velti fyrir mér örlögum frænda minna Bjarna og Einars og samferðamanna þeirra.
Örlög þeirra eru lifandi, enn í dag, tifa alltaf milli þils og veggjar með sinni dulúð og sorg. Ég ætla að skoða hvað skrifað hefur verið, hugsað og sagt. Fara yfir staðreyndir og getgátur og ekki síst hvaða áhrif þetta hafði á ættingja og afkomendur allra sem tengjast málinu.
Það er samt ekki ætlunin að reyna að finna út hvað gerðist á Kili árin 1780 og 1781. Það er eins og afi minn sagði: „Það er ekki hægt.“ – „Helmyrkur öræfanna gefur engin svör,“ segir Árni pabbi minn. En samt.
Hugurinn ber mig norður í land. Ég stend á hlaðinu heima á Uppsölum. Það er haust og ég horfi yfir héraðið, sem er baðað sól. Mælifellshnúkur bíður fregna eins og hann gerði árið 1780. Ég tek í tauminn og held af stað. Frændur mínir eiga það skilið að ég fylgi þeim áleiðis.
Eyþór Árnason, ljóðskáld.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.