„Þessi börn eru í lífshættu“

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, segir að börn sem glími við mikinn vímuefnavanda og hljóti ekki viðeigandi aðstoð í kerfinu séu í lífshættu.

Þetta sagði þingmaðurinn undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.

Hann benti á að hann hann hefði nýverið fengið tölvuskeyti frá Guðmundi Fylkissyni, lögreglumanni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en Guðmundur hefur helgað sig því verkefni undanfarin ár að leita að týndum börnum og koma þeim til síns heima eða í viðeigandi úrræði.

„Fram kom í skeyti Guðmundar að nú þegar lunginn af fjórða ársfjórðungi ársins er enn ekki liðinn eru beiðnir til hans frá barnaverndaryfirvöldum þegar orðnar fleiri en það heila ár þar sem þær voru flestar. Ef svo fer fram sem horfir munu beiðnir til Guðmundar verða um 400 talsins í lok árs. Stór hluti þessara beiðna er vegna barna sem fara úr úrræðum á vegum yfirvalda,“ sagði Grímur.

Dapurlegar lýsingar

Þá ræddi hann viðtal við tvær mæður tveggja 14 ára drengja sem væru á þeim stað að þær hefðu gefist upp á kerfinu hér á landi og leituðu nú leiða til að koma sonum sínum í meðferðarúrræði í Suður-Afríku.

„Mæðurnar tvær lýstu þrautagöngu sinni með börnin sín og þeim veggjum sem þær hafa rekið sig á. Þetta eru verulega dapurlegar lýsingar, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ef við vegum og metum upplýsingar frá Guðmundi Fylkissyni og mæðrunum tveimur má auðveldlega komast að þeirri sömu niðurstöðu og mæðurnar ræddu í viðtalinu; þ.e. að kerfið sem við ætlum að taki á vanda barna sem eiga við hegðunar- og/eða vímuefnavanda að stríða ráði ekki við hlutverk sitt,“ sagði Grímur.

Börnin upplifa höfnun

„Þessi börn eru í lífshættu og bið eftir viðunandi þjónustu getur haft alvarlegar afleiðingar. Saga barna sem stríða við mikinn vímuefnavanda er oft sú að þau hafa ekki fundið sig í skólakerfinu, þau hafa orðið fyrir einelti og verið færð á milli skóla. Þau upplifa höfnun, sem er skiljanlegt. Það er ekki mín sýn að þetta sé starfsfólkinu að kenna,“ bætti Grímur við.

Hann sagðist halda að starfsfólkið væri að vanda sig eins og það gæti.

„Þetta er okkur í stjórnmálageiranum um að kenna að einhverju leyti. Afleiðingar þessarar stöðu er sú að börnin fá ekki viðeigandi þjónustu með alvarlegum afleiðingum fyrir þau og fjölskyldur þeirra, ekki síst foreldrana, afleiðingar sem til langs tíma eru kostnaðarsamar fyrir alla; viðkomandi einstaklinga, fjölskyldur þeirra og samfélag. Nú stendur upp á okkur að breyta þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert