„Þetta hefðu getað orðið mín örlög“

Leik- og baráttukonan er í heimsókn hér á landi í …
Leik- og baráttukonan er í heimsókn hér á landi í tilefni af árlegri friðarráðstefnu Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og utanríkisráðuneytisins. Ráðstefnan verður haldin á föstudag í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. mbl.is/Hulda Margrét

Fyrstu minningar írönsku leikkonunnar Nazanin Boniadi eru af foreldrum hennar að beita sér fyrir frelsi írönsku þjóðarinnar frá íslamska ríkinu. Frá blautu barnsbeini hafa réttindi írönsku þjóðarinnar því setið í henni og hún leitað leiða til að beita sér fyrir þeim.

Raunar má segja að baráttan sé henni í blóð borin en móðir hennar, þá 19 ára og ófrísk af dóttur sinni, mótmælti yfirtökunni harðlega í íslömsku byltingunni árið 1979. Unga parið varð að flýja Íran með dóttur sína aðeins 20 daga gamla, þar sem faðir Boniadi var kominn á aftökulista íslamska ríkisins.

Þetta segir leikkonan í samtali við blaðamann mbl.is.

Nazanin Boniadi ræddi við blaðamann mbl.is í dag.
Nazanin Boniadi ræddi við blaðamann mbl.is í dag. mbl.is/Hulda Margrét

Sem leikkona er hún hvað þekktust fyrir hlutverk sín í þáttum á borð við How I Met Your Mother, Homeland og The Lord of the Rings: The Rings of Power en hún hefur helgað miklum hluta af ferli sínum til að berjast fyrir mannréttindum, meðal annars í Íran.

Hún er í heimsókn hér á landi í tilefni af árlegri friðarráðstefnu Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og utanríkisráðuneytisins. Ráðstefnan verður haldin á föstudag í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Pólitískir flóttamenn á aftökulista

„Ég grínast oft með að mín fyrstu mótmæli hafi verið í móðurkviði. Hún var 19 ára þegar hún varð ófrísk af mér, þetta var árið 1979 í Íran og foreldrar mínir voru á móti byltingunni sem var að eiga sér stað,“ segir Boniadi.

„Þannig að foreldrar mínir voru úti á gagnmótmælum, að segja: við viljum ekki þessa breytingu, að íslamska ríkið tæki yfir. Ég held að þetta hafi mótað alla tilveru mína.“

Foreldrar hennar urðu fljótlega pólitískir flóttamenn og flúðu með dóttur sína til Bretlands, þar sem þeim var veitt pólitískt hæli. Þá var Boniadi aðeins 20 daga gömul og faðir hennar kominn á aftökulista fyrir að mótmæla hinni nýju íslömsku stjórn í Íran. Þannig ólst hún upp í London.

Sögur þeirra sem hafa misst ástvini sína í kjölfar uppreisnarinnar 1979 og tilhugsunin um að hún hefði raunverulega getað misst föður sinn ristir djúpt og hefur mótað baráttu hennar.

„Þetta hefðu getað orðið mín örlög og mér finnst ég svo heppin að svo varð ekki. Hvernig get ég þá snúið baki við þjáningunni og fólkinu sem verður að halda áfram að berjast og fórna öllu sínu í nafni frelsisins?“

Notar samfélagsmiðla í þágu aktívismans

Það er önnur upplifun að skoða samfélagsmiðla Boniadi en margra annarra leikara, en miðlana notar hún liggur við eingöngu í þágu aktívismans. Spurð út í þetta svarar hún:

„Fyrstu minningarnar mínar eru af foreldrum mínum að segja mér sögur af hvernig Íran var fyrir 1979, hve hræðilegar breytingarnar voru fyrir alla, hvernig réttindi kvenna voru tekin af þeim og hve miklu Íranir töpuðu.

Ég man að jafn vel sem barn hugsaði ég að ég vildi einn daginn gera eitthvað til að hjálpa fólkinu sem var ekki eins heppið og ég, sem gat ekki flúið eða valdi sér að vera eftir og lifir við kúgun. Þess vegna nota ég vettvanginn minn, eins mikið og ég get, til að auka raddir þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert