Varnargarðar hækkaðir norðan Grindavíkur

Frá vinnu við varnargarðana.
Frá vinnu við varnargarðana. Ljósmynd/Stjórnarráðið/Vilhelm Gunnarsson

Dómsmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ríkislögreglustjóra um viðbætur við varnargarða norðan Grindavíkur. Varnargarður verður hækkaður um tvo til þrjá metra á um 450 metra kafla til að tryggja virkni hans og auka vernd bæjarins gagnvart mögulegu hraunflæði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Vinna við framkvæmdirnar eru þegar hafnar en áætlaður kostnaður vegna þeirra er um 80–120 milljónir króna, segir í tilkynningunni. Framkvæmdir við varnargarðana eru skipulagðar í nánu samráði við embætti ríkislögreglustjóra og hlutaðeigandi aðila.

Tryggja áframhaldandi vörn og öryggi

Haft er eftir Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í tilkynningunni að skýrt markmið stjórnvalda sé að tryggja öryggi íbúa og innviði.

„Við höfum séð að varnargarðarnir hafa reynst vel. Með þessari ákvörðun tryggjum við áframhaldandi vörn og öryggi á svæðinu.“

Hækkunin sé liður í aðgerðum stjórnvalda til að verja Grindavík og mikilvæga innviði á Reykjanesskaga vegna áframhaldandi jarðhræringa á svæðinu. Varnargarðarnir hafi gegnt lykilhlutverki við að verja bæinn og dregið úr hættu á tjóni á mannvirkjum og innviðum.

Að mati ríkislögreglustjóra sé varnargarðshlutinn sem um ræðir einn helsti átakapunkturinn í vörnum Grindavíkur, þar sem kvikugangur liggur undir garðinum og kvika hefur tvisvar runnið innan hans. Hraun hafi einnig lækkað virkni garðsins á um 430 metra kafla og því nauðsynlegt að endurheimta fyrri hæð til að tryggja öryggi byggðar og innviða.

Í tilkynningunni segir að ráðherra leggi áherslu á að fylgst verði áfram náið með þróun jarðhræringa og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt sé við framkvæmdina. Þá verði fyllsta öryggis gætt á verkstað og leitast við að lágmarka áhrif á umhverfi og náttúru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert