Veruleg hætta á að búa þurfi til harðari lendingu

Þórarinn G. Pétursson á fundi peningastefnunefndar í morgun.
Þórarinn G. Pétursson á fundi peningastefnunefndar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veruleg hætta er á því að ekki sé hægt að ná niður verðbólgunni hérlendis án þess að búa til harðari lendingu.

Þetta sagði Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri og staðgengill formanns peningastefnunefndar, á fundi nefndarinnar í morgun í svari við spurningu um hvort verðbólgan gæti hjaðnað án þess að heimilin myndi finna fyrir því. 

Fram kom í tilkynningu nefndarinnar um óbreytta stýrivexti að frekari skref til vaxtalækkunar væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% markmiði bankans.

Launahækkanir unnið gegn áhrifum 

„Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur í mjög langa hríð er hvort við getum náð verðbólgunni niður án þess að búa til harða lendingu. Það sem við höfum hingað til verið að spá er að það takist en það er veruleg hætta á því að það sé ekki hægt,” sagði Þórarinn.

Hann nefndi að miklar launahækkanir hefðu unnið gegn áhrifum peningastefnunnar og búið til sterkari kaupmátt fyrir heimilin. Aftur á móti hefðu heimilin notað hluta af auknum kaupmætti til að byggja upp sparnað. Það hefði létt á verðbólguþrýstingi.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson á fundinum í …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðalög til útlanda hafa ekki áhrif

Þórarinn sagði að vissulega hefði hluti af auknum kaupmætti fólks farið í að kaupa ferðalög í útlöndum en slíkt hefði engin sérstök áhrif á peningastefnu bankans. Sú einkaneysla færi út úr landi og skapaði ekki þrýsting á verðbólguna.

„Spáin er að þetta takist en við erum fyllilega meðvituð um að það gæti verið að það þurfi harðari lendingu og þess vegna erum við að fara varlega í vaxtalækkunarferlinu,” greindi hann frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka