Vill rannsókn á afdrifum barna eftir vistun

Umboðsmaður barna segir ríka ástæðu til að rannsaka afdrif barna …
Umboðsmaður barna segir ríka ástæðu til að rannsaka afdrif barna sem vistuð hafa verið í úrræðum á vegum ríkissins. Samsett mynd/Colourbox/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður barna hefur óskað eftir því við forsætisráðherra að það fari fram rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið í meðferðarúrræðum á vegum ríkisins. 

Telur umboðsmaður mikilvægt að lagt sé mat á það hvort meðferðarkerfið skili tilætluðum árangri og hvort veitt sé þjónusta sem raunverulega gagnast þeim skjólstæðingum sem þjónustuna þiggja. 

Einn mælikvarði á gæði slíkrar þjónustu sé að meta hvernig börnunum reiðir af og vegni á lífsleiðinni. 

Staða barna hefur versnað

Telur umboðsmaður ljóst að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, gagnvart þessum hópi barna vegna laskaðrar stöðu meðferðarkerfisins. Þá séu vísbendingar um að eftir 18 ára aldur standi þessi hópur höllum fæti í samfélaginu á mörgum sviðum.

Þetta kemur fram í bréfi Salvarar Nordal, umboðsmanns barna, til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.

Vísar hún til ársskýrslu umboðsmanns barna, sem kynnt var forsætisráðherra þann 26. ágúst sl. þar sem fram kemur að þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á málefni barna á umliðnum árum hafi staða barna sem þurfa á meðferðarúrræðum að halda versnað umtalsvert. 

Standi höllum fæti eftir 18 ára

Bendir Salvör á að samkvæmt barnaverndarlögum beri íslenska ríkið ábyrgð á að til staðar séu meðferðarúrræði fyrir börn. 

„Nánar tiltekið ber ríkinu að sjá til þess að tiltæk séu heimili og stofnanir til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika, greina vanda barna sem þurfa sérhæfða meðferð og veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota.“ 

Umboðsmaður barna hefur ítrekað lýst yfir þungum áhyggjum af því langvarandi úrræðaleysi sem ríkt hefur í málaflokknum og þeim afleiðingum sem það kann að hafa í för með sér fyrir þennan hóp barna síðar meir. 

„Bent hefur verið á að óæskileg blöndun barna í meðferð hafi verið viðvarandi vandamál til lengri tíma og haft í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu skjólstæðinga. Þá hafa einnig komið fram margvíslegar vísbendingar um að þessi hópur standi höllum fæti í samfélaginu á ýmsum sviðum, eftir 18 ára aldur,“ segir í bréfinu.

Rík ástæða til rannsóknar

Það sé því rík ástæða til þess að rannsaka afdrif þeirra barna sem vistuð hafa verið í áðurnefndum úrræðum frá því ríkið tók við rekstri þeirra samhliða því að Barnaverndarstofa var sett á fót árið 1996, nú Barna- og fjölskyldustofa. 

Bendir umboðsmaður á að sambærilegar rannsóknir hafi verið framkvæmdar til dæmis á starfsemi vöggustofa í Reykjavík.

„Að mati embættisins er m.a. tilefni til að rannsaka sérstaklega dánartíðni, atvinnuþátttöku, menntun, húsnæðisstöðu, örorku, afplánun dóma og geðheilbrigði. Umboðsmaður barna vonast til þess að forsætisráðherra veiti rannsókninni stuðning sinn svo unnt sé að ráðast í framkvæmd hennar. Lýsir embættið sig reiðubúið til samtals og samvinnu um afmörkun og skipulagningu slíkrar greiningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert