Illa hefur gengið að manna frístundaheimili borgarinnar í haust. Þóra Melsted, deildarstjóri barnasviðs hjá frístundamiðstöðinni Brúnni sem staðsett er í Austurmiðstöð Reykjavíkurborgar, segir að þegar litið sé til höfuðborgarinnar í heild hafi 3.516 börn fengið vistun í frístundaheimilum samkvæmt óskum, þá séu 283 börn í hlutavist og 408 börn á biðlista.
„Staðan virðist vera óvenjuslæm þetta haustið,“ segir Ólafía Lilja Sævarsdóttir, formaður foreldrafélags Ingunnarskóla í Grafarholti. Í Ingunnarskóla er búið að manna frístundaheimilið Stjörnuland fyrir 1. bekk og um miðjan september fengu börn í 2. bekk þrjá daga af fimm í viku, en 3. og 4. bekkur sitja á hakanum og eru á biðlista. Það er þriðjungur barnanna sem sóttu um vist.
Foreldrar eru orðnir óþreyjufullir um að hægt verði að koma á þessari þjónustu, því ekki geti allir leitað til afa og ömmu, eða stundað vinnu frá heimilinu þegar börnin eru búin í skólanum eftir hádegið. „Við bindum vonir við að þetta fari að lagast en vissulega er þetta slæmt þegar komið er fram í miðjan október,“ segir Ólafía.
„Í ár hefur reynst erfiðara að manna frístundaheimilið Stjörnuland en í fyrra,“ segir Þóra, en bætir við að líklega takist að fullmanna frístund fyrir 2. bekk á næstu dögum. Hún segir að fleiri umsóknir séu um frístundaheimilin í ár en í fyrra. „Það eru alls 4.219 umsóknir í frístundaheimili í borginni sem er fjölgun um 400 börn á milli ára.“
Þóra segir að svipað sé upp á teningnum í öðrum frístundaheimilum sem heyra undir Frístundamiðstöðina Brúna sem sér um tíu heimili í Grafarvogi, Grafarholti og Árbæ. „907 börnum hefur verið boðin dvöl, þar af 103 börnum í hlutavistun en 258 eru á biðlista. Þannig að staðan er svipuð.
Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að manna frístundaheimilin með góðu fólki og biðlistatölur taka breytingum jafnt og þétt. Mikið er lagt upp úr gæðum í frístundastarfinu og það eru sameiginlegir hagsmunir okkar og foreldra að það náist að ráða gott og hæft fólk til starfa,“ segir Þóra að lokum.
Frístundaheimili
Gert er ráð fyrir að börn sem sótt hafa um vist fái dvöl á frístundaheimili í upphafi skólaárs
Forgangsraðað eftir aldri og yngstu börnin í 1. bekk ganga fyrir, svo 2. bekkur, 3. bekkur og síðast 4. bekkur
Viðmið um fjölda starfsmanna er 1 fyrir 13 börn í 1. bekk og 1 fyrir 16 börn í 2-4. bekk
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
