Andlát: Þórir Jensen

Þórir Jensen.
Þórir Jensen.

Þórir Jensen, stórkaupmaður í Reykjavík, lést á Landspítalanum 2. október síðastliðinn, 80 ára að aldri.

Þórir fæddist í Reykjavík 19. nóvember 1944. Foreldrar hans voru þau Pétur Vilhelm Jensen, kaupmaður á Eskifirði, og Svava Jensen, kaupkona frá Patreksfirði.

Þórir ólst upp í Reykjavík og lauk námi frá Business School of London. Að námi loknu starfaði hann við hlið móður sinnar í heildsöluversluninni Jensen, Bjarnason & Co.

Árið 1966 kvæntist Þórir eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Valsdóttur, f. 1946. Árið 1972 stofnaði hann Bílaborg hf. og hóf innflutning á Mazda-bílum beint frá Japan og þótti það á þeim tíma vera mikil nýjung og frumkvöðlastarf.

Síðar tók hann aftur við rekstri Jensen, Bjarnason & Co. og árið 1993 stofnaði hann verslunina Innréttingar & Tæki, sem hann rak ásamt eiginkonu sinni í nær þrjá áratugi. Á síðustu árum starfaði hann við hlið dóttur sinnar, Írisar Jensen.

Börn Þóris og Helgu eru fjögur. Íris Jensen, f. 1969, gift Grétari Þór Grétarssyni, f. 1971. Svava Jensen, f. 1972, sambýlismaður Höskuldur Þór Höskuldsson, f. 1965. Helga Vala Jensen, f. 1978, gift Magnúsi Pétri Haraldssyni, f. 1978. Pétur Vilhelm Jensen, f. 1982.

Barnabörn Þóris og Helgu eru níu talsins og eitt barnabarnabarn.

Útför Þóris fer fram frá Bústaðarkirkju miðvikudaginn 23. október kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert