Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kveðst sjá fulla ástæðu fyrir því að taka umræðu um hvort ríkið eigi að vera á póstmarkaði.
Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Óskaði hún svara á afstöðu fjármálaráðherra til sölu á Íslandspósti og hvort að það samræmist stefnu Viðreisnar að ríkið reki flutningafyrirtæki en hún sagði Íslandspóst hafa á síðustu árum þróast í að vera flutningafyrirtæki frekar en póstþjónusta.
„Almennt er það viðhorf Viðreisnar, og ég hygg nú Sjálfstæðisflokksins líka, að ríkið ætti ekki að hafa afskipti af öðrum mörkuðum en þeim sem markaðsbrestir krefjast þess að ríkið hafi afskipti,“ svaraði Daði.
„En varðandi síðan Íslandspóst þá er í sjálfu sér rétt sem hæstvirtur þingmaður nefnir, að þetta fyrirbæri sem lykilinnviður hefur raunverulega misst mjög mikið af fyrri stöðu. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að hún væri horfin en hún hefur tvímælalaust minnkað og ég er sammála hæstvirtum þingmanni um að það er full ástæða til að taka umræðu um hvort ástæða sé til þess að ríkið sé á þessum markaði,“ sagði ráðherrann og benti á að Ísland væri stórt og strjábýlt land og að Pósturinn veitti þjónustu sem aðrir myndu ekki veita.
„Að minnsta kosti tel ég eðlilegt að það sé umræða um það hvort þetta eigi að vera varanlegt fyrirkomulag og við þá hvaða þröskulda eða skilyrði við myndum líta svo á að hagsmunir ríkisins af því að tryggja þessa þjónustu um allt land séu orðnir það litlir að ekki sé ástæða til að eiga þetta fyrirtæki,“ sagði Daði að lokum.
