Barði mann ítrekað með steypuklump í hausinn

Maðurinn segist hafa upplifað að hafa verið stunginn með einhverju. …
Maðurinn segist hafa upplifað að hafa verið stunginn með einhverju. Þá gripið steypuklumpinn og ráðist til varna. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Karlmaður sem barði annan ítrekað með steypuklump í hausinn í slagsmálum þeirra á milli við strætóskýli í mars 2022 var í Landsrétti í dag dæmdur til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar.

Dómur yfir manninum var þyngdur í Landsrétti en í júní á síðasta ári var maðurinn dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar, einnig skilorðsbundinnar til tveggja ára.

Var manninum þá gert að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur en ákvæði héraðsdóms þess efnis var staðfest í Landsrétti.

Sérstaklega hættuleg líkamsárás

Með dómi Landsréttar var maðurinn sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en ekki var fallist á að um neyðarvörn hafi verið að ræða.

Bar maðurinn fyrir sig að sá sem mátti þola höfuðhögg með steypuklump hafi veist að sér.

Hann hafi ekið á mikilli ferð upp á gras við strætóskýlið, farið út úr bílnum með eitthvað í höndunum og veitt sér högg í bringuna og andlitið.

Ekki nauðsynlegt til að verjast eða afstýra árás

Segist hann hafa upplifað að hafa verið stunginn með einhverju. Þá gripið steypuklumpinn og ráðist til varna. Skyndilega hafi hinn orðið blóðugur eftir að hafa verið laminn í höfuðið fimm sinnum.

Þriðji maðurinn sem var nærri stöðvaði slagsmálin og mennirnir héldu hvor í sína áttina.

Landsréttur telur, að virtum atvikum málsins og framburði mannsins og vitna, að ekki hafi verið leitt í ljós að háttsemin að „slá brotaþola ítrekað í höfuðið með steypuklumpi“ hafi verið nauðsynleg til að verjast eða afstýra ólögmætri árás þannig að hann teljist hafa unnið verkið í neyðarvörn líkt og hann heldur fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert