Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, telur það ekki vera forgangsverkefni að endurskoða fyrirkomulag einkunnagjafar í grunnskólum, þrátt fyrir skýrt ákall foreldra um annað.
Grunnskólum er í dag skylt að gefa einkunnir í bókstöfum við útskrift nemenda úr grunnskóla en hafa að öðru leyti nokkuð frjálsar hendur.
Þannig mega þeir gefa til dæmis einkunnir í táknum eða litum, svo dæmi séu nefnd.
Einkunnir í formi tölustafa þekkjast þó varla lengur.
Eins og mbl.is hefur ítrekað fjallað um eiga margir foreldrar í dag erfitt með að skilja einkunnir barna sinna.
Hafa foreldrar m.a. kvartað undan ógagnsæi í bókstafaeinkunnagjöfinni og ósamræmis.
Í könnun Maskínu, sem Vísir greindi frá í gær, kemur jafnframt fram að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er hlynntur einkunnagjöf í tölustöfum. Innan við 3% landsmanna eru hlynntari einkunnum í bókstafaformi, en 88% vilja einkunnir í tölustöfum. Aðrir tóku ekki afstöðu.
„Þetta er auðvitað eins og með allt, það er hægt að skoða þetta. En eins og ég segi – þetta er ekki forgangsverkefni að skoða þetta en þetta er inni í kerfinu að skoða þetta,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is.
Sumir kennarar segja að þetta gangi vel en aðrir eru að stelast til að gefa einkunnir í tölustöfum.
„Það er ekkert verið að stelast, þeir mega gefa einkunnir í annars konar formi frá 1. til 9. bekk. Svo í 10. bekk eru bókstafir,“ svarar Guðmundur.
Hann bendir á að þegar matsferillinn verður lagður fyrir alla grunnskóla á landsvísu fái allir nemendur sama prófið. Þá muni koma skýrt fram ef eitthvað „skrítið sé í gangi“.
„Þetta kerfi mun sjá til þess að jafna út að þau viti nákvæmlega hvar þessi börn standa,“ segir ráðherra.
En munið þið fylgjast með því þegar þið fáið matsferil og þið sjáið að niðurstöður í ákveðnum skóla eru í hrópandi ósamræmi við meðaleinkunnina.
„Já, auðvitað munum við fylgja því eftir. Það segir sig sjálft,“ segir Guðmundur og heldur áfram:
„Það er einmitt tilgangurinn, að við séum ekki með mismunandi kerfi í mismunandi skólum – einkunnakerfi. Heldur að við séum með þetta eins samræmt og hægt er.“
Eins og áður kom þó fram er kerfið ekki samræmt, heldur má áfram gefa einkunnir í litum og táknum í 1. til 9. bekk.