Þingmenn stjórnarandstöðunnar hvöttu ráðherra menntamála í dag til að endurskoða einkunnakerfið í sérstakri umræðu þingsins um menntamál.
Ráðherra svaraði þó engu um hvort það kæmi til greina.
Grunnskólum ber að gefa einkunnir á bókstafakvarða þegar nemendur eru útskrifaðir, en í 1. til 9. bekk hafa kennarar frjálsari hendur. Þekkist það til dæmis að nemendur fái einkunnir í litum og bókstöfum. Tölustafirnir, sem flestir fullorðnir þekkja frá sinni skólagöngu, eru þó orðnir sjaldgæfir.
Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins vakti fyrst athygli á því að margir foreldrar skildu ekki núverandi námsmat. Þetta hefur mbl.is ítrekað fjallað um.
Ný könnun Maskínu sýnir nú fram á að tæp 90% landsmanna vilja að einkunnir í íslenskum grunnskólum verði birtar í tölustöfum. Innan við 3% vilja hafa einkunnir í bókstöfum og innan við 10% finnst það ekki skipta máli. Vísir greindi frá þessu í gær.
„Vissulega er endurgjöf mjög mikilvæg og forsenda þess að við getum gripið inn í og hjálpað nemandanum og stutt við börnin svo þau sýni framfarir. Hins vegar er líka mikilvægt að bæði nemendur og foreldrar geti skilið og áttað sig á námslegri stöðu barnsins,“ sagði Ingibjörg.
Spurði hún hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að hafa einkunnagjöfina í grunnskólum skýrari.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, tók næstur til máls.
Hann greindi frá sex atriðum sem verið væri að vinna að í menntamálaráðuneytinu, en svaraði þó aldrei spurningunni um einkunnagjöfina.
Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri, tók næstur til máls. Hann lagði til átta aðgerðir, þar á meðal innleiðingu nýs einkunnakerfis.
Spurði hann að lokum hvort ráðherra hyggðist nýta sér þær aðgerðir sem hann nefndi.
Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknarflokksins gerði einkunnagjöfina einnig að umtalsefni.
Hún varaði við því að við mættum ekki eyðileggja hvatann til að skara fram úr með einkunnakerfi. Það að fá hugtök eins og „Hæfni náð“ og „Að vera á réttri leið“ í einkunn hefði ekki endilega sömu hughrif og að sjá einkunnir í tölustöfum – að geta keppt um að fá 9 eða 9,5.
Það væri af hinu góða að skapa samkeppnishvata.
Undir lok umræðunnar um menntamálin kom ráðherra aftur upp í pontu. Hann svaraði þó aldrei spurningum þingmanna um hvort hann tæki til skoðunar að endurskoða einkunnakerfið.