Nýr Landspítali ohf. (NLSH) auglýsti nýlega forval vegna áframhaldandi verktakavinnu í meðferðarkjarnanum, stærstu byggingu hins nýja spítala.
Um var að ræða þrjú fagsvið: Loftræsingu, pípulagnir og rafmagn. Áður hafði NLSH viðhaft markaðskönnun (RFI) þar sem verktakar höfðu tilkynnt áhuga sinn á verkinu og haldnir höfðu verið skýringarfundir um undirbúning innkaupanna.
Alls eru það fimmtán íslensk fyrirtæki sem vilja takast á við tæknivinnuna í meðferðarkjarnanum, segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH.
Fjórir aðilar tilkynntu sig inn í forvalinu um loftræsinguna: Blikksmiðurinn, Blikksmíði, Ísloft og Stjörnublikk. Í lagnahlutanum voru það fimm fyrirtæki: Aðallagnir, AH pípulagnir, Alhliða pípulagnir, Landslagnir og Rennsli. Síðasta forvalið sem var opnað snýst um rafmagnsvinnuna og þá tilkynntu sig inn sex fyrirtæki: Fagtækni, Rafbogi, Rafholt, Rafmiðlun, TG raf og Þelamörk.
Gunnar Svavarsson segir að þessi mikli áhugi íslenskra iðn- og verktakafyrirtækja sýni að markaðurinn telji sig vel í stakk búinn að takast á við svona stór verkefni. Nú verður farið yfir allar formkröfur aðilanna, hæfi og hæfni, og þeim fyrirtækjum sem standast kröfur verður boðið að taka þátt í lokuðu útboði, hvert á sínu fagsviði.
Gert er ráð fyrir að lokaða útboðið hefjist í byrjun nóvember.
NLSH starfar í samræmi við lög um opinber innkaup og eru þau auglýst á evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við löggjöfina.
Gunnar segir að NLSH hafi lagt sig fram um að kynna vel þær framkvæmdir sem fyrirtækið stendur fyrir, hvort sem er í verkefnum á Hringbraut, Grensás eða Akureyri. Þær kynningar, eða markaðsdagar, hafi verið skipulagðar í samstarfi við Samtök iðnaðarins og hafa þær verið fjölsóttar. Ljóst sé að það skili sér alla leið til fyrirtækjanna að vita hvað sé fram undan.
Umrædd verkefni tengjast neðri hæðum meðferðarkjarna, frá kjallara tvö til fjórðu hæðar, en ÞG-verk vinnur nú að alverki á fimmtu og sjöttu hæð í samræmi við samning sem var gerður fyrr á árinu. Þá styttist í að opnað verði lokað útboð um innanhússfrágang og stýriverktöku neðri hæðanna en Eykt, Ístak og ÞG-verk eru þátttakendur í því útboði.
Gunnar segir fjölmörg fleiri útboðsverk í farvatninu. Stærst er alverk í rannsóknahúsinu sem verður um 20.000 fermetrar. Þá er stefnt að því að framkvæmdir í jarðvinnu og gatnagerð fari af stað næsta vor við nýbyggingu Sjúkrahúss Akureyrar. Hönnunarútboð vegna geðspítala verður næsta sumar og síðan er mikill fjöldi af útboðum vegna búnaðar- og tækjakaupa fram undan eða hafa verið sett í auglýsingu.
Meðferðarkjarninn mun gegna lykilhlutverki í starfsemi nýja spítalans. Þar munu fara fram flóknar og vandasamar aðgerðir, greiningar og umönnun sjúklinga þar sem stuðst er við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu. Kröfur um aðbúnað eru sambærilegar og í nýjum sjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar, segir á vefsíðu NLSH.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
