Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, fagnar því að hafin sé vinna við viðbætur varnargarða norðan Grindavíkur en dómsmálaráðherra hefur samþykkt tillögur ríkislögreglustjóra þess efnis.
„Það er mjög mikið fagnaðarefni fyrir okkur Grindvíkinga að þessi vinna sé að hefjast. Þetta minnisblað um að hækka varnargarðana hefur legið fyrir síðan í apríl og við vorum orðin óþreyjufull eftir að fá grænt ljós frá ráðuneytinu til að fara í þessar framkvæmdir. Nú er það komið og við erum gríðarlega þakklát fyrir að þetta sé komið í gegn,“ segir Ásrún í samtali við mbl.is.
Hún segir að varnargarðarnir hafi sannað gildi sitt svo um munar í goshrinunni sem hefur staðið yfir frá því í desember 2023 en frá þeim tíma hefur gosið níu sinnum á Sundhnúkagígaröðinni.
Áætlaður kostnaður við hækkun varnargarðanna er á bilinu 80 til 120 milljónir króna og segir Ásrún að það sé kannski ígildi eins húss í bænum.
„Það má segja að varnargarðarnir séu verkfræðilegt undur og þeir gera meðal annars mér kleift að búa í Grindavík,“ segir hún.
Ásrún segir að Grindvíkingar séu meðvitaðir um að enn eitt eldgosið geti verið í vændum en komið er inn á það tímabil þar sem auknar líkur eru á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni. Neðri mörk kvikusöfnunar sem þarf fyrir kvikuhlaup eða eldgos eru 11 milljónir rúmmetrar og var þeim náð um síðustu mánaðamót.
„Sagan endurtekur sig. Landrisið er hafið og svo fylgist maður bara með fréttum. Aðili frá Veðurstofunni sagði á íbúafundi hjá okkur í gær að hann vonaði að það myndi ekki gjósa og auðvitað heldur maður í þá von. En það var líka ánægjulegt að heyra frá okkar helstu sérfræðingum að við séum komin inn í seinni hálfleik þessara atburða og að það fari að styttast í annan endann á þeim,“ segir Ásrún.