Bæjarstjórn Grindavíkur ásamt starfsmönnum bæjarins, formanni UMFG, björgunarsveitinni og fólki úr atvinnulífinu áttu fund með fulltrúum Alþjóðabankans í gær varðandi framtíðaruppbyggingu í bænum og í kjölfarið var haldinn íbúafundur sem Grindavíkurnefndin boðaði til með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra.
„Þetta voru mjög góðir fundir og fyrir keppnismanneskju eins og mig var gott að heyra að fulltrúar Alþjóðabankans voru heillaðir af seiglu íbúa Grindavíkur og þeir sögðust hafa fundið orkuna hjá fólki og hrifust af því viðbragði sem er í gangi, eins og varnargarðarnir og vegirnir sem hafa verið lagðir,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, í samtali við mbl.is og heldur áfram:
„Þetta er fólk sem fer á milli hamfarasvæða og vinnur að endurreisn samfélaga víða um heim. Vonandi getur það hjálpað okkur í því sem fram undan en þau töluðu líka um það að þessi heimsókn þeirra í Grindavík muni nýtast þeim.“
Ásrún segir að það virka samráð sem er í gangi við forsætisráðuneytið og Grindavíkurnefndina sé mjög gott og allir hafi trú á verkefninu varðandi framtíðaruppbyggingu í bænum.
„Það er mjög spennandi að taka þátt í endurreisn þessa frábæra samfélags og fyrsti sigurinn er sá að búið er að samþykkja að fara í kosningar í bænum næsta vor. Það er stórt skref og er liður í endurreisninni. Ég finn fyrir aukinni bjartsýni hjá fólki.
Íþróttirnar hafa komið þar sterkt inn og til að mynda er karfan komin heim og það má með sanni segja að íþróttirnar hafi dælt blóði í æðar okkar og súrefni inn í samfélagið okkar. Það er bjartara fram undan og ég vona að móðir náttúra leyfi okkur að njóta þess,“ segir hún.