Horfur í íslensku efnahagslífi hafa versnað á ný, samkvæmt reglulegri könnun Gallup fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins (SA).
Vísitala efnahagslífsins, sem mælir muninn á þeim stjórnendum sem telja aðstæður góðar eða slæmar, fellur nú verulega milli kannana og hefur ekki mælst lægri frá september 2024, þegar mikil óvissa ríkti vegna tolláforma Trumps Bandaríkjaforseta.
Þótt enn séu þeir sjónarmun fleiri sem telja efnahagsástandið vera gott en slæmt hefur þróunin snúist við meðal útflutningsfyrirtækja. Þar telur nú meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar. Svipaða sögu er að segja um fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins.
Þegar spurt er um horfur eftir sex mánuði fellur vísitalan úr 120 stigum í 60, sem bendir til að væntingar hafi versnað til muna. Horfur eru verstar í sjávarútvegi, þar sem vísitalan mælist einungis 13 stig, og næstverstar í ferðaþjónustu og samgöngum (43 stig). Í verslun er hún í 46 og þar er mesta fallið, var 143 stig í júní.
Fleiri stjórnendur telja að fækka þurfi starfsfólki á næstu sex mánuðum en fjölga. Þetta gildir einkum um fyrirtæki á landsbyggðinni og í útflutningi, þar sem væntingar hafa dofnað hraðar en í heildina.
Þrátt fyrir þetta telja stjórnendur að bæði innlend og erlend eftirspurn verði áfram nokkuð sterk næstu misseri. Hins vegar dregur úr fjárfestingaráformum, einkum í sjávarútvegi, bygginga- og veitustarfsemi og fjármálageiranum. Heildarvísitala fjárfestingarhorfa hefur lækkað úr 92 í mars í 85 nú, sem bendir til aukinnar varfærni í rekstri.
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti í gær óbreytta stýrivexti í 7,5%, en óhætt er að segja að sú ákvörðun hafi valdið vonbrigðum víða, þótt fáir hafi átt von á vaxtalækkun.
Finnbjörn Hermannsson forseti Alþýðusambandsins sagði að samdráttur blasti við í atvinnulífi vegna aðhalds Seðlabankans og fólk væri farið að missa vinnuna.
Samtök iðnaðarins (SI) gagnrýndu ákvörðunina einnig harðlega og sögðu að aðhaldsstig peningastefnunnar væri orðið of mikið miðað við stöðu efnahagslífsins.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði hins vegar að hagkerfið væri farið að kólna, eins og markmiðið væri, og telur að vaxtalækkun sé nú nær á sjóndeildarhringnum en vaxtahækkun. Næsta vaxtaákvörðun verður kynnt 19. nóvember.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag