Íbúar langþreyttir á ítrekuðu rafmagnsleysi

Íbúar í Vík í Mýrdal eru orðnir langþreyttir á ítrekuðu …
Íbúar í Vík í Mýrdal eru orðnir langþreyttir á ítrekuðu rafmagnsleysi. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafmagn fór af á Suðurlandi um hádegisbil í dag en hefur nú verið komið aftur á, að sögn Björns Þórs Ólafssonar, oddvita í Mýrdalshreppi.

Hann segir að rafmagn sé nú keyrt á varaafli, en íbúar séu orðnir langþreyttir á endurteknum rafmagnstruflunum á svæðinu.

„Það er komið á rafmagn núna. Það er verið að keyra á varaafli að því sem ég best veit,“ segir Björn Þór og bætir við að hann hafi ekki heyrt af neinum sérstökum atvikum í tengslum við bilunina.

Að hans sögn hefur rafmagnsleysið þó alltaf áhrif á daglegt líf og rekstur á svæðinu, ekki síst í ferðaþjónustu.

„Það eru veitingastaðir og annar rekstur sem er bara frosinn á meðan allt rafmagn er úti,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sveitastjóri fundaði með ráðherra

Björn Þór segir að íbúar í Mýrdalshreppi hafi þurft að glíma við slíkar truflanir oftar en góðu hófi gegnir.

„Við erum orðin langþreytt á þessu. Þetta er farið að gerast full oft fyrir okkar smekk. Það var einhvern tímann á síðustu tveimur eða þremur mánuðum sem þetta gerðist síðast. Sveitarstjórinn var meira að segja á fundi með orkumálaráðherra síðasta mánudag út af þessu, meðal annars,“ segir hann.

Hann bendir á að varastöðvar séu til staðar á svæðinu en að þær séu ekki ræstar fyrr en grænt ljós hefur verið fengið frá Rarik.

„Þeir voru stundum eitthvað tregir við að hleypa honum [rafvirkjanum] í þessar varastöðvar. Ég veit ekki af hverju það er, en það er dálítið pirrandi að vera með varastöðvar á svæðinu sem ekki fara strax í gang,“ segir Björn Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert