„Innantóm orð sigrast ekki á verðbólgunni. Seðlabankinn stendur sem næst einn í baráttunni þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um annað,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Þar spurði hún Daða Má Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 væri raunverulega til þess fallið að ná markmiðum um lægri vexti og aukinn stöðugleika. Tilefnið var ákvörðun Seðlabanka Íslands í gær um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,5% í annað skipti í röð.
Guðrún sagði ljóst að ekki yrði slakað á fyrr en verðbólgan færðist nær markmiði bankans. „Slíkar aðstæður skapast hins vegar ekki af sjálfu sér heldur kalla á samstillt átak aðila vinnumarkaðarins, hins opinbera og Seðlabankans,“ sagði hún.
Guðrún vísaði til þess að launahækkanir hefðu verið umtalsverðar síðustu misseri auk launaskriðs sem væri umfram það sem hagkerfið gæti staðið undir til lengri tíma.
„Það er óraunhæft að miklar launahækkanir skili sér bæði í auknum kaupmætti og lágum vöxtum nema eitthvað annað komi til. Einn armur hagstjórnar af þremur hefur þannig ekki róið í takt við peningastefnuna,“ sagði hún.
Þá benti Guðrún á að tekjur ríkisins væru um 80 milljörðum króna umfram áætlun á þessu ári, en samt væri gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs.
Daði Már Kristófersson sagðist sammála greiningu hennar. „Það sem drífur áfram þróunina um þessar mundir er launaskrið, þá sérstaklega launaskrið á almennum markaði,“ sagði hann.
Að sögn ráðherrans eru tæki ríkisins til að stemma stigu við þróuninni takmörkuð, en mikilvægt sé að ríkið sýni aðhald og stuðli að jafnvægi í fjármálum hins opinbera.
„Auðvitað hefði verið óskandi að fjárlög þessa árs hefðu verið hallalaus, en ég vil þó halda því til haga að strax og þessi ríkisstjórn tók við var fjármálaáætlun endurskoðuð,“ sagði hann.
Daði Már benti jafnframt á að hallinn hefði minnkað frá upphaflegum áætlunum og fjárlögin væru með minni halla en gert hefði verið ráð fyrir. Þá sagði hann að ríkisstjórnin hygðist kynna aðgerðir í húsnæðismálum, þar sem húsnæðisliðurinn hefði knúið áfram verðbólguþróunina.
„Þeir sem hafa þó glöggt fylgst með og lesið í orð Seðlabankans í gær taka kannski eftir því að þar hefur þó verið þróun í átt til meira jafnvægis og tónn bankans hefur batnað mikið,“ bætti hann við.
Guðrún sagði í framhaldinu að Seðlabankinn hefði í reynd eitt markmið sem væri stöðugt verðlag og að hann skeytti litlu um áhrif hárra vaxta á heimili og fyrirtæki nema að takmörkuðu leyti. Hún hvatti til betri samhæfingar ríkisfjármála og peningastefnu og spurði hvort skortur þar á hefði orðið til þess að Seðlabankinn sæi sér ekki fært að lækka vexti.
„Er ekki augljóst að tugi milljarða í tekjur umfram áætlanir hefði mátt verja til að bæta afkomu hins opinbera á þessu ári og því næsta og styðja þannig við Seðlabankann í sinni baráttu?“ spurði hún.
Daði Már svaraði að mikilvægt væri að ríkisfjármálin styddu við peningastefnu Seðlabankans en að fleiri þættir spiluðu þar inn í. Hann benti á að útbreidd notkun verðtryggingar á Íslandi tefði fyrir miðlunaráhrifum peningastefnunnar.
„Það hefur ítrekað komið fram í því sem Seðlabankinn hefur tjáð sig um aðgerðir sínar til að viðhalda stöðugleika í verðlagi, að verðtryggingin tefur mjög það sem kallað er miðlun á ferli peningastefnunnar,“ sagði hann.
Ráðherrann sagði ríkisstjórnina vera meðvitaða um þetta og að það væri forgangsmál að gera breytingar á fyrirkomulaginu. „Þannig þarf Seðlabankinn ekki að grípa til eins stórra skrefa og hann hefur orðið að gera hér, samanborið við nágrannalöndin,“ sagði hann að lokum.