Aðgerðir Isavia á Keflavíkurflugvelli á vordögum 2019 komu í veg fyrir að fyrirætlanir Skúla Mogensen og nánustu samstarfsmanna hans um endurreisn WOW air yrðu að veruleika.
Þetta fullyrðir Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús WOW air í samtali á vettvangi Spursmála.
Segir hann að alþjóðlega flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporation (ALC) sem var undir stjórn bandarísk-ungverska viðskiptajöfursins Steve Udvar-Házy hafi þá þegar WOW air féll lýst sig reiðubúið til að tryggja endurreistu fyrirtæki fjórar vélar úr flota sínum. ALC hafði reynst einn öflugasti bakhjarl Skúla Mogensen á árunum fyrir fall félagsins.
Hins vegar hafi kyrrsetningaraðgerðir Isavia gegn einni af vélum ALC orðið til þess að fyrirtækið varð afhuga því að koma að endurreisn fyrirtækisins.
Líkt og fjallað var ítarlega um á sínum tíma hafði WOW air gert samkomulag við Isavia mánuðina fyrir fall félagsins þess efnis að á hverjum tíma væri að minnsta kosti ein af vélum félagsins staðsett á vellinum til tryggingar þeim himinháu skuldum sem safnast höfðu upp gagnvart rekstrarfélagi Keflavíkurflugvallar, sem er í eigu Isavia.
Vélin sem kyrrsett var á Keflavík að morgni 28. mars 2019 reyndist vera í eigu ALC og því sat félagið uppi með Svarta-Pétur gagnvart Isavia sem neitaði að heimila vélinni brottför fyrr en milljarðaskuld WOW við flugvöllinn yrði gerð upp.
Isavia tapaði að lokum málinu og var vélinni flogið af landi brott um miðjan júlí 2019.
Þá segir Sveinn Andri einnig að skiptastjórar þrotabús WOW air hafi gert alvarlegar athugasemdir við það að ALC hafi fengið talsvert miklar greiðslur upp í ógreidda leigu daginn áður en WOW air féll.
Viðtalið við Svein Andra má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: