Katrín: Uppsagnir farnar að bíta í

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, segir að baráttan fyrir tilvist PCC …
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, segir að baráttan fyrir tilvist PCC sé númer eitt, tvö og þrjú. Samsett mynd/mbl.is/Hafþór Hreiðarsson/Norðurþing

„Því er ekki að neita að hér á Húsavík er staðan að þrengjast. Uppsagnirnar hjá PCC eru farnar að bíta í hjá fólki og fyrirtækjum.“

Þetta sagði Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, á fundi sveitarstjórnar Norðurþings í dag.

Katrín sagði að það væri mjög erfið staða á sama tíma og ferðaþjónustan legðist í dvala yfir veturinn.

Áhrif á fyrirtæki könnuð

Hún sagði alveg ljóst að rekstrarstöðvun fyrirtækisins hefði víðtæk áhrif í samfélaginu, starfsfólk fyrirtækisins, viðskiptaaðila og sveitarfélagið.

Katrín segir sveitarfélagið hafa leitað til Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi eystra um að leggja mat á stöðu atvinnulífsins í tengslum við rekstrarstöðvun PCC. Því eigi eigendur fyrirtækja á svæðinu von á að fá senda stutta könnun þess efnis á næstu dögum.

„Baráttan fyrir tilvist PCC er númer eitt, tvö og þrjú en á sama tíma er mjög mikilvægt að landa nýjum atvinnutækifærum. Vinna Landsvirkjunar skiptir miklu máli og að þau hraði vinnu við mat á fyrirtækjunum sem sækjast eftir fyrir verkefni á Bakka og gefi út viljayfirlýsingu um orkuafhendingu sem fyrst,“ sagði Katrín.

Boða ráðstefnu í nóvember

Katrín segir vinnu við viðburð á Húsavík hafna og að til standi að hann fari fram 20. nóvember næstkomandi. Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka: Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri.

Markmið hans er að draga saman hagaðila á svæðinu til að ræða sameiginlega framtíðarsýn og möguleika til frekari verðmætasköpunar. Ráðstefnan verður auglýst á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert