Fall Play hefur engin áhrif á kvörtun stjórnenda flugfélagsins á hendur Icelandair frá 5. september, eða um þremur vikum fyrir gjaldþrotið.
Kvörtunin er tilkomin vegna orða Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og flugmanns hjá Icelandair, sem spáði því að Play væri á leiðinni í gjaldþrot.
Kvörtunin snýr að því að Icelandair hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína.
Þrotabú Play gæti farið fram á skaðabætur ef Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að Jón Þór hafi með orðum sínum farið á svig við samkeppnislög.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfestir að kvörtunin sé enn opin við mbl.is.
„Kvörtunin er enn opin en það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um framhald málsins,“ segir Páll Gunnar.
Stjórnendur töldu að vegið hefði verið að Play með dylgjum um starfsemi, stöðu og horfur og spáði Jón fyrir um gjaldþrot félagsins í samtali við útvarpsþáttinn Bítið á Bylgjunni.
Þar sagðist hann meðal annars hafa skoðað ársreikninga félagsins og spáð gjaldþroti út frá þeim forsendum sem hann las út þar.
Orðin lét Jón Þór falla skömmu eftir að Play hafði tryggt sér 2,8 milljarða fjármögnun í skuldabréfaútboði.
Eftir fall Play sagði Einar Örn Ólafsson, fyrrum forstjóri Play, að miðasala hefði hrunið í kjölfar þess að Jón Þór tjáði sig í útvarpinu þann 27. ágúst. Sagði hann jafnframt fáa eins viðkvæma fyrir „röngum fullyrðingum“ og flugfélög sem hefðu allt sitt undir í því trausti sem neytendur bera til þeirra.
Þá hefur verið sagt frá því að kröfuhafar Play hafi í kjölfarið breytt viðskiptaháttum sínum gagnvart flugfélaginu. Þannig gátu þeir sem áttu í viðskiptum við flugfélagið neitað viðskiptum nema með því að fá greitt fyrir fram eða með því að gera upp eldri skuldir.
Það hafi meðal annars leitt til þess að fé úr skuldabréfaútboði í ágúst brann upp.