Nú þegar 70 ár eru liðin frá því að Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels og 90 ár frá útgáfu Sjálfstæðs fólks virðast bækur skáldsins vera á nokkuð hraðri útleið af leslistum framhaldsskóla.
Innan við þriðjungur framhaldsskólanema les nú skáldsögu eftir Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku og þar af er Sjálfstætt fólk aðeins lesin í fjórum skólum af 29. Þetta hlutfall virðist hafa lækkað mikið á allra síðustu árum en kennarar segja orsökina vera minnkandi lesskilning, dvínandi orðaforða sem og breyttan tíðaranda.
Sambærileg þróun virðist sömuleiðis vera upp á teningnum þegar kemur að lestri Íslendingasagna. Rétt er að geta þess að í mörgum skólum þar sem engin skáldsaga eftir Halldór Laxness er lesin er enn lagt upp úr því að kynna nemendum hann í gegnum ljóð, brot úr verkum og styttri sögur.
Í samtali við Morgunblaðið segir Halldór Guðmundsson, ævisagnaritari skáldsins og bókmenntafræðingur, hins vegar að hann telji það ekki duga til að fá góða tilfinningu fyrir höfundarverkinu. „Þú verður að taka eina af skáldsögunum hans. Hann á frábærar smásögur en það jafnast ekkert á við það að glíma við stóru verkin,“ segir Halldór.
Spurður hvernig þessi þróun, að skáldsögur Laxness virðist að miklu leyti vera á útleið úr framhaldsskólum landsins, blasi við honum segir hann: „Fyrir mig, sem hefur fengist við hann nánast alla mína ævi, þá finnst mér þetta náttúrlega mjög leitt því að það er hægt að sækja svo ótrúlega mikið líf og bókmenntalegan kraft í hans verk.“
Hann bætir við að ef til vill sé framhaldsskólanemendum ekki gerður mikill greiði með því að henda Sjálfstæðu fólki í hausinn á þeim í heilu lagi þar sem um sé að ræða óvenjuþunga bók hvað orðaforða og efnistök varðar og að önnur verk Laxness og styttri komi rétt eins vel til greina.
Spurður hvaða þýðingu það hafi fyrir bókmenntaþjóðina Ísland að nú fari í gegnum skólakerfið kynslóð sem ráði ef til vill ekki við verk á borð við skáldsögur Laxness bendir Halldór á að það séu bókmenntirnar sem hafa í þúsund ár haldið Íslendingum saman sem þjóð, sagnaarfurinn hefur fylgt þjóðinni frá landnámi.
„Ég hef áhyggjur af þessu, af því að bókmenntirnar hafa verið okkar leið til að finna okkur samastað í tilverunni. Við eigum engar gamlar kirkjur eða stórar hallir eða neitt slíkt, en við getum bent á einhverjar þúfur á Suðurlandi og sagt að þarna hafi Njála gerst. Og á síðustu árum hafa nýir Íslendingar til dæmis líka fundið sér samastað hér með því að skrifa bókmenntir á íslensku.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Gunnar Heiðarsson:
Hvort kemur á undan, hænan eða eggið?
Páll Vilhjálmsson:
Moggi er Bjartur samtímans
