„Að vekja athygli á geðsjúkdómum og vinna gegn fordómum gagnvart þeim er eilífðarverkefni en verkefnin breytast í takt við tímann,“ segir Pálína Björnsdóttir sem er í forsvari fyrir alþjóðageðheilbrigðsdaginn sem er á morgun, 10. október. Efnt verður til viðburða af því tilefni og dagskráin er venju samkvæmt fjölbreytt. Þegar kemur að inntakinu og boðskap dagsins er sjónum að þessu sinni sérstaklega beint að geðheilbrigði á vinnustöðum.
„Nú á tímum kemur gervigreindin sterkar inn á sífellt fleiri sviðum atvinnulífsins. Þetta verður til þess að starfsfólk þarf oft að vinna hraðar, það er að krafan um skil á verkefnum er orðin meiri en var. Að afkasta meiru á sífellt skemmri tíma er boðorðið sem gildir. Þetta er þó ekki alltaf sanngjarnt því manneskjan er lifandi vera en ekki vél eða forrit eins og gervigreindin er,“ segir Pálína sem telur gervigreindina geta virkað bæði til góðs og ills þegar kemur að líðan fólks.
„Þess þarf að gæta að ekki séu lagðar óraunhæfar kröfur á fólk. Á vinnustöðum þarf því, bæði nú og í nánustu framtíð, að gæta að heilsu mannauðs fyrirtækisins og þá ekki síst geðheilbrigði fólksins. Ef fólk fær ekki jafnan stuðning frá fjölskyldu, vinum og vinnustaðnum verður það til þess að viðkomandi hrökklast úr vinnu og jafnvel brennur út eða fer í kulnun. Hlutföll vinnu og einkalífs verða að vera í eins góðu jafnvægi og hægt er.“
Pálína segir að sér þyki margt í geðheilbrigðismálum hafa þróast til góðs á síðustu árum. Fræðsla til almennings og í skólum sé auðsóttari og þar sé að hafa upplýsingar sem eru ítarlegar og nákvæmar. Þá bjóðist hjálp víða utan sjúkrastofnana, þar sem þróunin sé á hinn veginn. Þar komi til mannekla og ófullnægjandi húsakostur. Mestu skipti þó að mannfólkið í öllum sínum fjölbreytileika búi í því þeim aðstæðum að umhverfið sé eflandi og styrki.
„Gerð nútímasamfélags getur og hefur ýtt undir til dæmis aukinn kvíða meðal ungs fólks,“ segir Pálína. „Það er þessi sífelldi hraði í daglega lífinu, að allir eigi að vera í vinnu, skóla og tómstundum. Helst líka að mæta á atburði tengda fjölskyldu, vinum og vinnu. Sjálfri finnst mér hraðinn í þjóðfélaginu hér heima hafa verið aðeins hægari og betri fyrstu árin eftir hrunið árið 2008. Fólk almennt gaf sér meiri tíma til að hafa ánægju af til dæmis samverustundum af öllu tagi í stað þess að vera á sífelldum hraða í lífsgæðakapphlaupinu.“
Í tilefni af alþjóðageðheilbrigðisdeginum er efnt til samkomu í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík. Þetta verður á morgun, föstudag, og er húsið opnað kl. 12:30. Dagskrá hefst svo klukkan 13:00. Þar verða tónlistaratriði og gamanmál og meðal þeirra sem fram koma verða tónlistarmaðurinn Helge Snorri og Bolli Már Bjarnason, útvarpsmaður á K100. Ávörp flytja Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og Heiða Björg Hilmisdóttur borgarstjóri. Aðgangur er ókeypis rétt eins og kaffið og kleinurnar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
