Lofa að enginn detti milli kerfa

Iris Dögg Harðardóttir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Erla Ragnarsdóttir skólastjóri Flensborgarskóla, …
Iris Dögg Harðardóttir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Erla Ragnarsdóttir skólastjóri Flensborgarskóla, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Hildur Ingvarsdóttir skólameistari tækniskólans og Einar Jónsson hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Fulltrúar lögreglustjórans, sýslumannsins og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og framhaldsskóla í Hafnarfirði undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um að vinna saman að því að stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu í Hafnarfirði og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi.

150 manns sem vinna saman að velferð hafnfirskra barna hittust á vinnustofu í Kaplakrika og skerptu á ferlunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Farsæld tryggð af fólki sem talar saman

Í upphafi vinnustofunnar sagði Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, að farsæld barna verði ekki tryggð af einni stofnun, heldur af fólki sem tali saman, deili upplýsingum og bregðist við snemma.

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og hér í Hafnarfirði ætlum við að tryggja að þorpið okkar sé samstillt, vakandi og geisli af hlýju og öryggi,“ sagði Valdimar.

„Við vitum að börn í viðkvæmri stöðu eru þau sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu eða eru sjálf komin í aðstæður þar sem þau þurfa stuðning okkar allra. Það er skylda okkar að bregðast við.

„Börnin eru framtíðin en þau eru líka nútíðin. Þau eru hér og nú, og þau þurfa á okkur að halda strax í dag,“ sagði Valdimar þegar hann setti vinnustofuna.

Sagði hann frá því að undanfarna mánuði hafi verið unnið að því að móta verklag og samráð. Það væri ekki eingöngu pappírsvinna heldur grunnurinn að raunverulegu samstarfi sem geti bjargað barni og breytt lífi þess til hins betra.

Mikilvægt að taka snemma á málum

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sem ritaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd embættisins, sagði við tilefnið að samvinna skipti öllu fyrir börn í viðkvæmri stöðu svo mál væru leyst á sem farsælastan hátt. Sagði hún mikilvægt að taka snemma á málum og hafa stuttar boðleiðir.

Valdimar lagði þá áherslu á að samstarfsyfirlýsingin sé ekki formsatriði, heldur loforð um að þau sem að samstarfinu standi ætli að hlusta, læra hvert af öðru og skapa vettvang þar sem enginn detti á milli kerfa.

„Þetta þýðir að enginn á að standa einn. Ekki barn, ekki fjölskylda og ekki starfsmaður sem vill gera rétt en veit ekki hvert hann á að leita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert